Lánasjóður landbúnaðarins

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 12:10:53 (6455)

1997-05-14 12:10:53# 121. lþ. 124.10 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[12:10]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Góður hluti ræðu minnar fór í það að reyna að útskýra afstöðu mína. Og ég átti nú satt að segja von á því að einn af vitringunum í efh.- og viðskn. skyldi afstöðuna. En afstaðan byggist á því að ég tel þetta frv. vera hluta af heildarpakka um breytingar á bankakerfinu og þær breytingar styð ég heils hugar og tel mjög nauðsynlegt að þær gangi fram. Jafnframt gerði ég grein fyrir því að þær breytingar sem hér væru gerðar væru til bóta frá því ástandi sem er í dag þrátt fyrir að ég hefði séð betri leiðir. Ég er alveg sannfærður um að hv. þm. hefur einhvern tímann séð betri leiðir en þær sem farnar voru í þeim málum sem hann hefur stutt án þess að hann hafi gert sérstaklega meira en að gera grein fyrir því hér í ræðustóli.

Hins vegar er afskaplega vandlifað þegar verið er að ræða landbúnaðarmál á hv. Alþingi, sérstaklega við þá hv. þm. úr þingflokki jafnaðarmanna, því það er alveg sama hvernig maður útskýrir samkomulag sem náðst hefur milli stjórnarflokkanna og maður ætlar að styðja, af því maður telur það vera til bóta, hvort sem maður er með fyrirvara eða ekki. Maður er gagnrýndur fyrir það að setja fyrirvara, en það gerði hv. formaður Alþfl. þegar við ræddum búvörusamninginn fyrir nokkrum missirum síðan. Þá var ég gagnrýndur mjög harðlega af talsmönnum jafnaðarmanna fyrir að hafa fyrirvara við málið og nú er ég gagnrýndur harðlega af talsmanni jafnaðarmanna fyrir að hafa ekki fyrirvara. Ég verð nú bara eiginlega að spyrja hv. þm.: Hvernig á ég að standa að málunum ef ég ætla að styðja þau þótt ég telji þau kannski ekki vera alveg 100% eins og ég vildi helst hafa þau? Á ég að hafa fyrirvara eða á ég ekki að hafa fyrirvara svo Alþfl. eða þingflokkur jafnaðarmanna sé ánægður með afstöðu mína?