Lánasjóður landbúnaðarins

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 12:12:59 (6456)

1997-05-14 12:12:59# 121. lþ. 124.10 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[12:12]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Fyrirvari eða ekki fyrirvari, það er efinn. Ég get ráðlagt hv. þm. Hann hefði átt að hafa fyrirvara í þessu máli. Það er alveg skýrt að ég tek undir afstöðu hans og mér finnst hann hafa lýst málinu skynsamlega. Það er hins vegar fullkomlega óeðlilegt, miðað við þá afstöðu sem hann gerði hér skilmerkilega grein fyrir, að skrifa undir álitið án fyrirvara. Auðvitað þurfa menn ekki að hafa fyrirvara við mál nema þar séu mikilsverð gagnrýnisatriði. Þingmaðurinn hefur lýst því mjög skilmerkilega í hverju þau voru fólgin. Hann sá ástæðu til að gera það sérstaklega að umtalsefni. Við slíkar aðstæður ber honum að skila nál. með fyrirvara. Við vinnum eftir þingskjölunum og þetta var óeðlileg málsmeðferð af hálfu hv. þm.

Ég man ekki hvernig það var með búvörumálin á sínum tíma. Ég virði skoðanir hv. þm. Mér finnst hann oft og tíðum að mörgu leyti koma fram með viðhorf sem eru skynsamleg og mér finnst hann gera það í þessu máli. Hins vegar gagnrýnir hann með réttu alla þessa málsmeðferð og aðferðafræði. Ég tek undir það. Ég bendi hins vegar á --- við erum ekki í formlegri deilu um fyrirvara eða ekki fyrirvara --- að það liggur fyrir að þingmenn Sjálfstfl. eru mjög ósáttir við þetta frv. Hv. þm. Egill Jónsson fylgir ekki málinu. Það hefur komið skýrt fram í umræðunni þótt fyrirvaralaust sé skrifað undir af hálfu hv. þm. Árna M. Mathiesens, að hann hefði kosið mjög margar aðrar leiðir en þessa þó svo hann telji hana vera til bóta miðað við núverandi kerfi.

Ég sé á þessu öllu, herra forseti, að landbúnaðarstefna ríkisstjórnarinnar og hæstv. landbrh. eins og hún birtist í þessum tveimur frv. um lánasjóðinn og um búnaðargjaldið, er raunverulega gjaldþrota og þingmenn Sjálfstfl. fluttu líkræður yfir henni hér í morgun.