Lánasjóður landbúnaðarins

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 12:16:22 (6458)

1997-05-14 12:16:22# 121. lþ. 124.10 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[12:16]

Frsm. minni hluta landbn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að játa að undir ræðu hv. þm. Árna Mathiesens náði ég enn og aftur í þetta meirihlutaálit landbn. til að kanna hvort hann hefði skrifað undir það, og hér stendur skýrum stöfum: Árni M. Mathiesen. Og áðan kom fram að það var ekki tilviljun, það voru ekki mistök í prentun. Það kom fram hjá hv. þm. að hann er andvígur því að sérstakur lánasjóður skuli rekinn fyrir landbúnaðinn. Það kom fram hjá hv. þm. að hann taldi bestu leiðina þá að þessi sjóður hefði runnið inn í Búnaðarbankann líkt og minni hlutinn lagði til í nál. sínu. Það kom fram hjá hv. þm. að hann styddi þetta sökum þess að verið væri að breyta íslenskum fjármagnsmarkaði.

Virðulegi forseti. Það má svo sem til sanns vegar færa að hin frv., sem hann vísaði til, fela í sér einhverjar breytingar en það sem hér er í gangi er engin breyting, ekki nokkur einasta breyting. Hann nefndi í raun og veru eina breytingu sem er tæknileg útfærsla um að ekki er lengur til krafa um að lán fari á lögbýli. Að öðru leyti er grundvallarafstaða hans í andstöðu við frv. Ég ætla ekki að þræta við hv. þm. hvort hann eigi að skrifa undir með fyrirvara eða ekki fyrirvara, en ég er ekki betur gefinn en svo að ef menn eru í grundvallaratriðum á móti því frv. sem er í gangi og við erum að tala um, þá get ég ekki fengið mig til að skilja það hvernig menn geti stutt það frv. og ég held að æra mætti óstöðugan að halda áfram þessum rökræðum. Ég verð að taka undir með hv. þm. Ágústi Einarssyni að ég botnaði hvorki upp né niður í þessari ræðu að öðru leyti en því að þær röksemdir sem hann setti fram voru skynsamlegar. En að hann skuli í framhaldi af því skrifa undir þetta álit er mér gersamlega fyrirmunað að skilja.