Lánasjóður landbúnaðarins

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 12:19:32 (6460)

1997-05-14 12:19:32# 121. lþ. 124.10 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[12:19]

Frsm. minni hluta landbn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að reyna að ljúka umræðunni um viðhorf hv. þm., að hann skuli skrifa undir það sem hann er gersamlega andvígur. Það hefur komið fram í umræðunni, virðulegi forseti, að hv. þm. Egill Jónsson, sem hefur verið einhvers konar fyrirliði sjálfstæðismanna í umræðum um landbúnaðarmál til margra ára, er þessu frv. gersamlega andvígur. Og hv. þm. Árni M. Mathiesen, sem kannski kemst næst því að vera talsmaður Sjálfstfl. að Agli undanskildum, er í grundvallaratriðum á móti þessu.

Hv. þm. Pétur Blöndal, sem er þeirra sérfræðingur í efnahagsmálum, telur að þetta frv. sé aðeins til þess fallið að viðhalda kerfi sem er fyrir löngu orðið gjaldþrota. Ég hlýt því að spyrja hv. þm. Árna Mathiesen: Er það svo að í málinu sé að ganga fram stefna Framsfl.? Hefur það loksins gerst í ríkisstjórnarsamstarfinu að Framsfl. hefur tekist að vaða yfir Sjálfstfl.? Þingmenn Sjálfstfl. koma hér upp hver á fætur öðrum, og tala um að þeir séu þessu gersamlega andvígir, en þegar á hólminn er komið ákveða þeir að ganga undir hið gamla gjaldþrotakerfi, landbúnaðarkerfið.