Lánasjóður landbúnaðarins

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 12:50:02 (6466)

1997-05-14 12:50:02# 121. lþ. 124.10 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[12:50]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. landbrh. sá ástæðu til þess í síðustu ræðu sinni að geta um þau ummæli mín fyrr á fundinum að ég teldi að landbúnaðarstefna ríkisstjórnarinnar væri gjaldþrota. Hann mótmælti því. En hún er það í reynd. Og einmitt bæði ræða og svar hv. þm. Egils Jónssonar og ræða hv. þm. Árna Mathiesens fyrr á fundinum sýna að þessi stefna sem landbrh. hefur verið að knýja fram, nýtur ekki einu sinni stuðnings stjórnarliða. Það er ekki einungis að þung rök gegn málinu hafi komið frá okkur stjórnarandstæðingum, heldur eru virtir einstaklingar í þingflokki samstarfsflokksins andvígir þessari stefnu. Það kalla ég gjaldþrota stefnu.

Þótt hæstv. ráðherra geti núna gripið til varadekkjanna eins og þessi ríkisstjórn hefur stundum gert og handjárnað suma og leyft sér að knýja hér mál í gegn án þess að allir fylgi því, þá er það þannig að menn eru komnir að endalokum þessarar landbúnaðarstefnu sem hæstv. ráðherra ver hér með kjafti og klóm. Ég á þá von og ósk að það takist að hnekkja þessari stefnu á afdrifaríkan hátt, ef ekki á þessu kjörtímabili þá örugglega á því næsta.