Lögræðislög

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 14:33:41 (6487)

1997-05-14 14:33:41# 121. lþ. 124.2 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., HjálmJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[14:33]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Lögræðislögin snúast um mannréttindi en þessi brtt. frá stjfrv. gengur í þveröfuga átt. Það er sjaldgæft að fólk á aldrinum 16--18 ára sé svipt sjálfræði með dómi sem er tiltölulega einföld og fljótleg leið ef svo illa er komið að slík aðgerð sé nauðsynleg. Það er minna en eitt tilfelli á ári þar sem þarf að svipta sjálfræði, eitt af hverjum 4 þúsundum. Á 10 árum eru það átta af 40 þúsund. Börn vinna sér ekki til óbóta á Íslandi heldur til bóta. Þau vaxa upp til ábyrgðar í íslensku samfélagi, í áföngum allt frá fermingaraldri. Það hefur gefist vel og við eigum fallega og efnilega æsku á Íslandi í dag. Þegar og þar sem út af bregður þarf að leysa málin með sérstökum aðgerðum í stað þess að svipta heila árganga ungs fólks sjálfræði sínu. Ég segi nei við hækkun sjálfræðisaldurs.