Lögræðislög

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 14:43:50 (6496)

1997-05-14 14:43:50# 121. lþ. 124.2 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., VS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[14:43]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Mín skoðun er sú að það sé rétt að hækka sjálfræðisaldurinn í 18 ár. Sú afstaða mín byggist á ítarlegri athugun á málinu í hv. allshn. en nær allir umsagnaraðilar mæla með þessari breytingu í umsögnum sem bárust nefndinni. Má þar nefna m.a. Félag framhaldsskólanema. Íslensk ungmenni búa almennt í foreldrahúsum fram undir 20 ára aldur og eru foreldrar fjárhagslega ábyrgir vegna þeirra til 18 ára aldurs. Mín afstaða byggist ekki fyrst og fremst á því að bregðast þurfi við vandamálum sem upp kunni að koma vegna tiltölulega fárra unglinga sem lent hafa á glapstigum heldur tel ég að 18 ára sjálfræðisaldur sé rökréttur m.a. með tilliti til framfærsluskyldunnar. Það er enginn sviptur sjálfræði með samþykki þessarar brtt. Ég segi já.