Tolla- og fíkniefnaleit í Reykjavík

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 15:34:43 (6505)

1997-05-14 15:34:43# 121. lþ. 125.5 fundur 596. mál: #A tolla- og fíkniefnaleit í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi SvG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[15:34]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn til hæstv. fjmrh. sem prentuð er á þskj. með viðeigandi hætti og er á þessa leið:

,,Hyggst ráðherra beita sér fyrir lagfæringum á Reykjavíkurflugvelli og Reykjavíkurhöfn í því skyni að auðvelda tollaleit og fíkniefnaleit?``

Tilefni fyrirspurnarinnar er tvennt. Í fyrsta lagi háttar þannig til að í Reykjavíkurhöfn og Reykjavíkurflugvelli er engin aðstaða til að leita á fólki sérstaklega ef grunur kemur upp um fíkniefni. Þó er um að ræða, t.d. á Reykjavíkurflugvelli, verulega umferð flugvéla frá útlöndum, bæði á venjulegum tíma ef svo mætti segja, það eru áætlunarflugvélar sem koma frá t.d. Færeyjum og Grænlandi og það er sérstaklega ferjuflugið sem er iðulega á nóttunni þegar enginn tollvörður er við og engin tollaleit framkvæmd á Reykjavíkurflugvelli.

Í öðru lagi er það svo að í Reykjavíkurhöfn hefur verið komið upp nýju fyrirkomulagi við tolleftirlit og tollaleit. Kerfinu var breytt í grundvallaratriðum í vetur. Komið var upp eftirlitsdeild, sem er jákvætt, og á að ná utan um þessi mál. Hins vegar hefur á sama tíma verið fækkað á skipavakt úr þremur tollvörðum í tvo á vakt og staðan er núna þannig að frá því kl. 12 á miðnætti til kl. 8 á morgnana er enginn tollvörður á fastri vakt í Reykjavíkurhöfn, stærstu höfn landsins. Eftir að skipin eru tollafgreidd fylgist enginn sérstaklega með þeim á þessum tíma. Auðvitað er skip tollafgreitt ef það kemur að á nóttunni og ræst út sérstaklega í tilefni af því. Eftir það ekki um neitt eftirlit að ræða.

Þetta bendir til þess, herra forseti, að það sé þannig að Reykjavíkurflugvöllur sé galopinn, (GMS: Besti smyglflugvöllur landsins.) Besti smyglflugvöllur landsins, segir einn tryggasti þingmaður stjórnarflokkanna sem situr hérna á móti mér, hv. 2. þm. Vestf., besti smyglflugvöllur landsins eða heimsins vegna þess að hann er galopinn þegar um ferjuflugið er að ræða. Á nóttunni er ekkert eftirlit heldur í Reykjavíkurhöfn eftir að búið er að tollafgreiða skipin og auk þess er það svo þannig, herra forseti, að þegar það næst þó í aðila sem þarf kannski að leita á á Reykjavíkurflugvelli, þá er engin aðstaða til þess. Þetta er ekki gott, hæstv. fjmrh. Þess vegna legg ég fyrir hann þessa spurningu.