Innheimta þungaskatts

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 15:51:48 (6511)

1997-05-14 15:51:48# 121. lþ. 125.3 fundur 463. mál: #A innheimta þungaskatts# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[15:51]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Það er einungis út af síðustu orðum hv. þm. um það hvort ástæða sé til þess að fresta fyrirhugaðri breytingu á því hvernig tekjum megi ná í ríkissjóð af bifreiðum sem aka um vegina að ég vil láta það koma fram sem ég held nú reyndar að hv. þingmenn viti að efh.- og viðskn. hefur flutt hér frv. sem gerir ráð fyrir því að fresta gildistöku laga, sem reyndar eru lög í landinu, en lögin áttu að taka gildi um næstu áramót. Gildistímanum er frestað um eitt ár og hugmyndin er að vinna frekar að málinu í sumar en jafnframt liggur fyrir viljayfirlýsing um að það verði kannað rækilega og út frá því gengið að hverfa frá því kerfi sem við búum við og fara yfir í litun eins og gerist reyndar alls staðar í Evrópu.

Hins vegar hljóta ýmis álitamál að koma upp þegar þetta mál er rætt. Þar á meðal þarf að kanna hvort við verðum að búa við blandað kerfi því að öllum er ljóst að bílar slíta vegunum ekki í hlutfalli við eyðslu heldur í hlutfalli við þyngd og þeir bílar sem eru langþyngstir slíta vegum margfalt á við hina bílana. Þetta þarf að kanna. Við getum lært af reynslu annarra þjóða en þó umfram allt af reynslu Dana sem munu í sumar, í síðasta lagi í haust, taka upp litun eins og hér er áætlað að gera, en sú aðferð er mun ódýrari heldur en þær sem áður hafa þekkst.