Skattaleg meðferð lífeyris og bætur almannatrygginga

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 15:53:49 (6512)

1997-05-14 15:53:49# 121. lþ. 125.4 fundur 573. mál: #A skattaleg meðferð lífeyris og bætur almannatrygginga# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[15:53]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Á þskj. 946 ber ég fram fyrirspurn til hæstv. fjmrh. um skattalega meðferð lífeyris og bóta almannatrygginga. Fyrirspurnin er í tveimur liðum, svohljóðandi, með leyfi forseta:

1. Er af hálfu ríkisstjórnarinnar fyrirhugað að breyta skattalegri meðferð og tekjutengingu lífeyris til hagsbóta fyrir þá lífeyrisþega sem verst eru settir?

2. Áformar ríkisstjórnin að breyta skattalegri meðferð og tekjutengingu bóta almannatrygginga til hagsbóta fyrir þá bótaþega sem verst eru settir?

Þetta er fyrirspurnin. Hér er um að ræða afar stórt mál og þýðingarmikið fyrir fjölda manns í landinu sem í hlut á varðandi þau atriði sem hér eru nefnd, skattalega meðferð lífeyris og bóta almannatrygginga. Það hefur lengi viðgengist að mínu mati óeðlileg meðferð að því er varðar skattlagningu á bótum til þeirra sem lakast eru settir og ég tel einsýnt að gerðum kjarasamningum þorra launafólks í landinu að nú blasi við meira óréttlæti að þessu leyti en áður þar sem bilið sem var á milli lægstu launaflokka og bóta almannatrygginga og lífeyris gleikkar til muna þannig að verulegum upphæðum nemur. Það ætti í rauninni að vinda að því bráðan bug að jafna þarna metin þannig að ekki sé um að ræða það óréttlæti sem þarna er, a.m.k. að draga úr því mjög verulega. Eins og kemur fram í fyrirspurninni er hér lögð áhersla á þá bótaþega sem verst eru settir. Það er að sjálfsögðu álitamál hversu langt er gengið í þessum efnum og hversu á er tekið, en fyrst og fremst hef ég í huga þá sem í rauninni ná ekki eðlilegri framfærslu og eru í stökustu vandræðum, ég tala nú ekki um ef eitthvað ber út af í daglegu lífi.

Það liggur fyrir að þeim sem þiggja bætur, t.d. sérstaka neyðaraðstoð, heimilisaðstoð og annað þess háttar er í raun oft á tíðum refsað fyrir það ári seinna í skattalegu tilliti. Sama gildir varðandi vasapeninga sem fólk fær við vissar aðstæður á stofnunum, það kemur í höfuðið á fólki ári seinna þannig að í rauninni er það verr sett þegar upp er staðið en áður en það fékk viðkomandi bætur. Hér er því um stórt en jafnframt nokkuð flókið mál að ræða ef litið er til einstakra bótaflokka og samanburðar en ég vænti þess að fá skýr svör frá hæstv. ráðherra um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar.