Skattaleg meðferð lífeyris og bætur almannatrygginga

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 16:05:25 (6516)

1997-05-14 16:05:25# 121. lþ. 125.4 fundur 573. mál: #A skattaleg meðferð lífeyris og bætur almannatrygginga# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[16:05]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Það er einungis eitt atriði sem mig langar til þess að koma að í seinni ræðu minni og það snýr að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Ég tel mig hafa svarað öðru eins og ég best get á þessum tíma.

Eins og ég sagði fyrr finnst mér sanngjarnt að líta til þess hvort fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna á að verða til þess að lækka bætur úr almannatryggingakerfinu. Mér finnst að það þurfi að skoða rækilega hvort það sé sanngjarnt. Ég tel fulla ástæðu til þess vegna þess að þá er kerfið farið að vinna gegn sér.

En þegar við ræðum um skattinn horfir málið allt öðruvísi við og ég ætla að skýra af hverju. Íslensk skattalög eru þannig byggð upp að útsvarsgreiðslur, þ.e. greiðslur til sveitarfélaganna af tekjum, eru án takmörkunar. Frá fyrstu krónu fá sveitarfélögin 12% af öllum krónunum og það af öllum krónum sem eru undir skattleysismörkunum. Ríkið verður að greiða sveitarfélögum þessa fjármuni af þeim skatti sem ríkið heimtir af þeim sem eru fyrir ofan skattleysismörkin. Þetta þýðir með öðrum orðum að af öllum styrkjum sveitarfélaganna, sem verða þó ekki til þess að tekjur viðkomandi einstaklinga nái skattleysismörkum, renna 12% beint til baka til sama sveitarfélags aftur. Þess vegna segi ég: Það er engin sanngirni í öðru en sveitarfélögin passi upp á að hafa þessa styrki nægilega góða til þess að þeir a.m.k. dugi fyrir framfærslunni og þeim skatti sem sveitarfélögin taka til baka.

Þetta vil ég að komi hér skýrt fram af því að ég heyri að það er stórkostlegur misskilningur oft hvað þetta snertir. Það sem ég sagði hins vegar áðan og vil að komi skýrt fram er að ég tel miku eðlilegra að líta til þess að þetta styrkjakerfi sveitarfélaganna verði ekki til þess að draga úr aðstoð almannatryggingakerfisins sem er sams konar aðstoð.