Rekstrarhagræðing

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 16:11:52 (6518)

1997-05-14 16:11:52# 121. lþ. 125.6 fundur 598. mál: #A rekstrarhagræðing# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[16:11]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég vil leitast við að svara þessari fyrirspurn en vil þó geta þess að hv. þm. hefur að verulegu leyti svarað fyrirspurninni sjálfur með því að gefa hér greinargóðar upplýsingar um þær reglur sem í gildi eru. Ég býst við því að hann beini máli sínu til mín vegna þess að ég gaf út reglugerð í samráði við fjárln. á sínum tíma, 10. mars á þessu ári, og hv. þm. lýsti henni. Það er rétt sem hann segir að þetta byggist á lögum, þ.e. lið 5.6 í 6. gr. fjárlaga.

Það er líka hárrétt hjá hv. þm. að tvær beiðnir hafa komið vegna hagræðingarliðs heilbrrn. Annars vegar er um að ræða vegna útgjalda sem verða vegna sparnaðaraðgerða á Borgarspítalanum, eða Sjúkrahúsi Reykjavíkur eins og það heitir, upp á 12,7 millj. Fjárln. hefur fjallað um þá beiðni og fallist á hana fyrir sitt leyti.

Hins vegar hefur komið beiðni um 30 millj. kr. framlag til að opna og reka lýtalækningadeild Ríkisspítala og hefur fjárln. fjallað um það mál og samþykkt að gera það ef sýnt er fram á þann sparnað sem áskilinn er í lögum. Það verður að segja þá sögu eins og hún er að enn hefur ekki borist sú skýring frá Ríkisspítölum, a.m.k. ekki til fjmrn., sem þörf er á að fáist til þess að hægt sé að nota þennan lið og fallast á hann. Ég get þess vegna ekki sagt annað en beðið er eftir því að sú skýring komi frá Ríkisspítölum að opnun þessarar deildar leiðir til sparnaðar í rekstri eins og áskilið er.

Ég vil svo að allra síðustu geta þess, virðulegi forseti, að af þessum lið var 60 millj. ráðstafað í sparnað vegna sjúkrahúsa utan Reykjavíkur þannig að þeim mun meira verður á liðnum sem betur tekst til um sparnað þeirra sjúkrahúsa. En varðandi aðalefni fyrirspurnarinnar, þá er beðið eftir rökstuðningi forráðamanna Ríkisspítala og fyrr er ekki hægt að taka endanlega afstöðu til fyrirliggjandi beiðni.