Reglur Seðlabankans um verðtryggingu

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 16:28:06 (6523)

1997-05-14 16:28:06# 121. lþ. 125.7 fundur 595. mál: #A reglur Seðlabankans um verðtryggingu# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[16:28]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Það er enginn misskilningur í því hjá hv. þm. að það kemur skýrt fram í mínu svari, og vil ég vitna aftur í það, að ákvæði 1. málsl. 3. mgr. 21. gr. vaxtalaganna kveður einungis á um að ákveða megi lágmarkstíma. Út á það ganga þær reglur sem Seðlabankinn hefur nú sett, þ.e. að ákveða einungis lágmarkstíma verðtryggðra innstæðna og lána en ekki að afnema verðtrygginguna. Þarna er því enginn ágreiningur milli mín og hv. þm. um það, eins og ég sagði áðan, að eigi að koma til þess að verðtryggingin verði afnumin með öllu þarf að breyta vaxtalögum í þá veru að heimildir séu til slíkra hluta og það verður gert. En eins og ég sagði er hér um að ræða ákveðna áætlun sem ríkisstjórnin í samvinnu við Seðlabankann hefur sett fram um hvernig þessi skref skulu stigin. Stefnumótun hefur átt sér stað fram til aldamóta og þegar að þeim tíma dregur, sem nú gerir óðfluga, þurfa menn að taka upp nýjar tímasetningar í framhaldinu. Á grundvelli þeirra þurfa menn síðan að taka ákvörðun um hvort og hvenær þurfi að breyta vaxtalögum til þess að tryggja það, ef sú ákvörðun verður tekin, að verðtryggingin verði afnumin að fullu.

En aðeins út af orðum hv. þm. varðandi einstaka vöruflokka sem hafa hækkað. Það er rétt að það er hægt að reikna það út að þegar brauð hækkaði um 10% hefði það leitt til 280 millj. kr. hækkun á skuldum heimilanna. Í mánuðinum áður, febrúarmánuði á þessu ári, átti sér stað lækkun á kjötvörum og öðrum vörum til heimilisnota. Sú lækkun leiddi til þess að skuldir heimilanna lækkuðu á þeim tíma um 420 millj. kr. þannig að það er endalaust hægt að fara út í slíkar vangaveltur og útreikninga hvað einstakar breytingar hafa í för með sér. Aðalatriðið er að nægjanleg samkeppni sé á þessum markaði sem komi í veg fyrir að verðhækkanirnar fari af stað.