Íslensk stafsetning

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 16:39:33 (6526)

1997-05-14 16:39:33# 121. lþ. 125.8 fundur 602. mál: #A íslensk stafsetning# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[16:39]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og lít svo á að úr því að ekkert bann gildi við því að rita zetu séu alla vega æðstu menn Morgunblaðsins löglegir í sínum skrifum því eins og alþjóð veit hefur Morgunblaðið ekki fellt niður zeturegluna. Það tók Morgunblaðið hins vegar mjög langan tíma að taka upp stafsetninguna frá 1928. Það tók hátt í 30 ár þannig að menn skipta ekkert auðveldlega um þar sem réttilegt er.

Í röksemdum sem koma fram við umræður á Alþingi á sínum tíma þegar var verið að tala um zetuna fannst mér skemmtilegust sú setning frá Gils Guðmundssyni sem vildi ekki taka upp zetu á ný og líkti henni við botnlangann í mannlegum líkama. Þegar búið væri að fjarlægja botnlangann væri ástæðulaust að fara að græða hann í aftur. En ýmislegt hefur reyndar breyst í þekkingu manna á mikilvægi botnlangans svo þau rök standa kannski ekki enn þá.

Ég ætla samt að segja frá því hér að fyrir danska þinginu liggur frv. til laga um stafsetningu og ljóst er að frændur vorir í Danmörku líta á það sem sjálfsagðan hlut að þeirra þjóðþing fjalli um svo mikilvægt mál og danska stafsetningu. Ég hvet ráðherrann til að skoða hug sinn betur hvað þetta varðar.

Mig langar svo að lokum að vitna í nokkrar setningar úr varnarræðu Jóns Guðmundssonar, íslenskukennara í menntaskólanum, sem skrifaði heilmikinn varnarbálk í þessu stafsetningarmáli, og hljóma svona:

,,Var því eigi örgrannt um að flestöllum brygði býsna illa í brún og hygðu það firn mikil er það heyrðist að nýskipuð stafsetningarnefnd legði eindregið til að Íslendingar hyrfu frá ævafornri hefð í ritmennsku. Var ekki að ófyrirsynju að ýmsum sem við íslenskukennslu fást þætti nú sem sá hyggi sem hlífa skyldi og þau vinnubrögð næsta kynleg er menntmrn. birti svo skyndilega auglýsingu sína um jafnróttæka breytingu sem afnám z hlýtur að teljast.

Sökum óhugnanlegrar deyfðar alþýðu manna og í senn ísmeygilegra og illyrmislegra ásakana rætnisfullra rægitungna um gengdarlaust og einskis nýtt málfræðistagl í skólakennslu þykir nú mörgum alveg sýnt að á næsta leiti megi sjá hilla undir enn byltingarkenndari tillögur.``

Þetta var varnarræða Jóns Guðmundssonar íslenskukennara gegn breytingum og fyrir þeirri íslensku sem kennd var í áratugi í íslenskum skólum. Ég hvet hæstv. menntmrh. til þess að sýna þessu sitt milda auga og líka til þess að setja lög á Alþingi um íslenska stafsetningu.