Tjón á bílum

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 16:48:10 (6529)

1997-05-14 16:48:10# 121. lþ. 125.9 fundur 609. mál: #A tjón á bílum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[16:48]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Sem svar við fyrstu fyrirspurninni er það að segja að á vegum ráðuneytisins hefur starfshópur skipaður fulltrúum frá dómsmrn., fjmrn., Bílgreinasambandinu og Félagi ísl. bifreiðaeigenda unnið að tillögum að reglum um tjónabifreiðar. Snemma á síðasta ári skilaði starfshópurinn áfangaskýrslu um innflutning á tjónabifreiðum. Í framhaldi af því ritaði ráðuneytið Bifreiðaskoðun Íslands hf. bréf sem dags. var 27. mars 1996 þar sem eftirfarandi kom m.a. fram:

Ráðuneytið lítur svo á að ekki eigi að skrá ökutæki sem flutt eru mikið skemmd til landsins eftir alvarleg umferðar\-óhöpp. Það sem heillegt er af þessum ökutækjum má nota sem varahluti. Frá þessu mætti samt gera undantekningu ef aðili skilar staðfestu vottorði um allt vinnuferli viðgerðarinnar frá viðurkenndum aðila og tryggt er að ökutækið sé fullkomlega viðgert.

Starfshópnum þótti rétt að ganga frá reglum um innlendar tjónabifreiðar í kjölfarið á þessari niðurstöðu þannig að reynsla hefði fengist af vinnuferli með notaðar innfluttar bifreiðar. Unnið hefur verið að því síðan að ná samstöðu við ýmsa aðila um þetta efni, þar á meðal bifreiðatryggingafélögin. Starfshópurinn vinnur nú áfram að þessu verki þannig að reglur um þetta svið í heild sinni geti orðið til sem allra fyrst og að sjálfsögðu mun ráðuneytið fylgja því fast eftir að fyllsta samræmi verði í þessu efni á milli innlendra og erlendra tjónabifreiða þannig að jafnræði ríki þar á milli í samræmi við stjórnsýslureglur.

Sem svar við annarri fyrirspurninni er þetta að segja: Það var á sínum tíma ákvörðun Bifreiðaskoðunar Íslands að þessi yrði niðurstaðan. Ráðuneytið telur eðlilegt að breyta skráningu bifreiða þegar vottorð frá viðurkenndu verkstæði liggur fyrir um fullkomna viðgerð á bifreiðinni. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvernig á að breyta skráningunni en ákvörðun um það verður væntanlega tekin innan skamms. Breytt skráning mun þá einnig ná til bifreiða sem þegar hafa fengið fullkomna viðgerð en eru skráðar tjónabifreiðar.

Sem svar við þriðju fyrirspurninni er þetta að segja: Skráningarstofa getur því aðeins skráð bifreið sem tjónabifreið og fylgt eftir eðlilegri viðgerð á henni að formleg tilkynning um skemmdir á bifreiðinni berist frá þar til bærum aðilum. Ekki er auðvelt að ná til allra bifreiða sem lenda í tjóni en vonast er til að starfshópurinn ljúki bráðlega störfum og að þá hafi náðst samstaða á milli þeirra sem að þessum málum koma um skráningu, viðgerð, merkingu og vottaða viðgerð á tjónabifreið.

Sem svar við fjórðu spurningunni er þetta að segja: Það liggja ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um hve margar bifreiðar lenda árlega í umferðaróhappi né greining á hve margar bifreiðar skemmast það mikið að þær teljast tjónabifreiðar. Samkvæmt upplýsingum frá Sambandi ísl. tryggingafélaga lentu um það bil 19 þúsund bifreiðar í munatjóni á sl. ári og áætlað er að bótaskylda sé í um það bil 10 þúsund af þessum bifreiðum.

Um fimmtu spurninguna er það að segja að eins og er annast enginn mat á tjónastað en starfshópurinn sem vinnur að reglum um þessi efni er að leita leiða til úrbóta.

Um sjöttu spurninguna er það að segja að eina eftirlitið sem nú fer fram er í árlegri skoðun á bifreiðinni. Skoðunarstofurnar hafa ekki fullnægjandi tæki eða aðstöðu til að meta nægjanlega vel hvort t.d. skekkja á burðarvirki eða hjólabúnaði bifreiða er til staðar. Því er hugað að nýjum leiðum til að draga úr fjölda illa viðgerðra bifreiða í umferðinni. Vænlegasti möguleikinn er talinn sá að eigandinn eða umráðamaður bifreiðarinnar hafi hag af því að fá viðgerðina tekna út á viðurkenndu viðgerðaverkstæði og staðfesta í ökutækjaskrá.

Kjarni þessa máls, í tilefni af þessari fyrirspurn, er vitaskuld sá að ráðuneytið mun fylgja því eftir að þeir sem um þessi mál fjalla framfylgi settum reglum á grundvelli jafnræðisreglu sem er meginregla í íslenskri stjórnsýslu.