Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 21:10:17 (6533)

1997-05-14 21:10:17# 121. lþ. 126.1 fundur 331#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[21:10]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Konur og karlar. Orðið bjartsýni kemur óðar fram á varir mínar þegar ég tek til máls hér í kvöld. Ég er bjartsýnn á horfurnar í þjóðarbúskapnum eins og þær blasa við og ég tel mig hafa full rök fyrir því að mér leyfist að vera það. Til að skýra mál mitt betur ætla ég að fara í stutta upprifjun og biðja fólk að hugsa um ástandið eins og það var á áttunda áratugnum og níunda áratugnum þegar verðbólgudraugurinn reið hér húsum.

Lítum svo í kringum okkur núna. Það er að vaxa upp í landinu kynslóð sem ekki þekkir verðbólguna nema af afspurn. Það hefði þótt trúleg saga eða hitt þó heldur fyrir áratug eða svo, en það lýsir hinum miklu umskiptum sem hér hafa orðið. Ég sé líka ástæðu til að minna á áfallaárin 1992 og 1993 sem nú eru óðum að gleymast. Þá fór það saman að aflaheimildir voru skornar niður um þriðjung og verðlag fór lækkandi á nánast öllum okkar útflutningsvörum. Það var því hart í ári. En við Íslendingar sýndum það þá sem oft endranær að við kunnum að standa saman við slíkar kringumstæður. Kjarasamningarnir 1993 tóku mið af aðstæðum og fólu ekki sér almennar kjarabætur heldur miðuðust við það eitt að verja kaupmáttinn og búa í haginn fyrir framtíðina. Og það tókst með þeim aðgerðum í efnahagsmálum sem ríkisstjórnin greip til og fólust m.a. í því að leggja fram verulegt fé til atvinnuuppbyggingar og til samgöngubóta. Umskiptin til hins betra voru snögg og nú sjáum við svo sannarlega til sólar, Íslendingar.

Síðustu ár hefur efnahagsþróunin verið einstaklega hagstæð. Það hefur verið mikill hagvöxtur, það hefur verið stöðugleiki í verðlagsmálum, það er vaxandi atvinna og störfum hefur fjölgað. Afkoma fyrirtækjanna hefur verið góð og kaupmátturinn er vaxandi. Á blaðinu hér fyrir framan mig er ég með tölur um það frá Þjóðhagsstofnun. Mælikvarðinn er kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann. Hann hefur vaxið um 3,5% 1995, 4,5% 1996 og aftur í ár um 4,5% og síðan til aldamóta er búist við að kaupmátturinn vaxi um 3--4% á ári. Þetta er töluvert meiri kaupmáttaraukning en í aðildarríkjum OECD þar sem hún hefur verið 2,5% eða svo.

Nýju kjarasamningarnir eru okkur Íslendingum gott vegarnesti inn í nýja öld. Þeir gefa vissulega fyrirheit um að efnahagslegi ávinningurinn verði mikill. Aðilar vinnumarkaðarins, atvinnurekendur ekki síður en launþegar, trúa því að fyrirtækin eigi að hafa svigrúm og bolmagn til að standa við fyrirheitið um lífskjarabatann. Það sýnir ákvæðið um að kjarasamningarnir séu uppsegjanlegir ef kaupmáttur ráðstöfunartekna hækkar ekki með sama hætti og meðal nágrannaþjóða. Þannig endurspegla kjarasamningarnir þá trú sem aðilar vinnumarkaðarins hafa á undirstöðum efnahagslífsins, endurspegla þá staðreynd að ríkisstjórninni hefur tekist að skapa atvinnulífinu rekstrarumhverfi sem er sambærilegt við það besta sem er í nálægum löndum, rekstrarumhverfi sem gefur olnbogarými og ný sóknarfæri bæði hér á landi og inn í önnur lönd líka, sem er mikilsvert.

Að sínu leyti kom ríkisstjórnin að kjarasamningnunum með veigamiklum breytingum í skattamálum og skiptir þar mestu máli að það hefur náðst að taka svo vel til í ríkisfjármálunum að það er raunhæft að lækka tekjuskattinn verulega á næstu árum, um 1,1% á þessu ári, um 1,9% til viðbótar um næstu áramót og aftur um 1% 1. janúar 1999. Þessi skattalækkun dregur úr jaðaráhrifum og jafngildir um 2% hækkun kaupmáttar ráðstöfunartekna heimilanna.

Á þessu ári verður ríkissjóður rekinn hallalaus í fyrsta skipti um árabil. Þar með hefur skuldasöfnun ríkisins verið stöðvuð og er mikilvægt að okkur takist að halda þessu jafnvægi í ríkisfjármálunum nú þegar ákveðnar hafa verið miklar stóriðju- og virkjunarframkvæmdir til ársins 1999. Það tryggir hagvöxt á næstu árum og býr í haginn fyrir varanlegan hagvöxt til framtíðar.

Miklar skipulagsbreytingar eru fram undan í hagkerfinu með því að samþykkt hafa verið lög um að breyta Landsbankanum og Búnaðarbankanum í hlutafélög og um stofnun Fjárfestingarbanka og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Með þessum ákvörðunum er lagður grunnur að því að ríkið dragi sig úr atvinnustarfsemi á fjármálamarkaði á næstu árum eins og það hefur gert á svo mörgum öðrum sviðum. Það er nauðsynlegt vegna mikilla sviptinga sem fyrirsjáanlegar eru á íslenskum fjármálamarkaði vegna nýrrar samkeppni erlendis frá og til þess að öll fyrirtæki starfi við sömu skilyrði.

[21:15]

Frá árinu 1991 hefur markvisst verið unnið að sölu ríkisfyrirtækja sem eru í samkeppnisrekstri með góðum árangri. Þannig er stefnt að því strax eftir stofnun Fjárfestingarbankans að selja hlutabréf ríkisins í umtalsverðum mæli og jafnframt er ráðgert að heimila útboð á nýju hlutafé bankanna, en meiri hlutinn í þessum fjármálastofnunum verður ekki seldur nema sérstök ákvörðun Alþingis komi til.

Með því að breyta Pósti og síma í hlutafélag var stigið nauðsynlegt skref til einkavæðingar. Það sýnir reynslan frá öðrum löndum. Fjarskipti eiga sér ekki lengur nein landamæri og þau verða algjörlega gefin frjáls hér á landi um næstu áramót. Til þess að styrkja samkeppnisstöðuna er nú í athugun hvort rétt sé að skipta fyrirtækinu upp í tvö fyrirtæki. Og í framhaldi af því og samtímis hlýtur að koma til athugunar hvort rétt sé að bjóða út nýtt hlutafé með mjög dreifðri eignaraðild og sérstöku tilliti til starfsmanna en slíka ákvörðun yrði að sjálfsögðu að leggja fyrir Alþingi. Póstur og sími er vissulega fyrirferðarmikill í íslensku umhverfi eins og Flugleiðir, en hvorugt þessara fyrirtækja getur vaxið né boðið fyrsta flokks þjónustu til frambúðar nema þau sæki út fyrir landsteinana. Þá verður heimamarkaðurinn þeim nauðsynlegur styrkur, aflið sem til þess þarf að fara í víking. Yfirleitt er skilningur á þessu hér á landi. Yfirleitt sjá menn að jafnvel þessi fyrirtæki eru dvergar eða lítil peð í alþjóðlegu umhverfi. Þess vegna megum við ekki krenkja þau á heimamarkaðinum.

Enginn vafi er á því að sú skipan sem hér hefur verið tekin upp á stjórn fiskveiða hefur sannað sig í veigamiklum atriðum. Fiskifræðingar eru að ná betri tökum á því en áður að halda sókninni í því horfi að ekki sé gengið á fiskstofna. Þannig er líklegt að þorskafli geti vaxið á næstu árum og horfur eru einnig góðar um loðnuveiði. Fyrirtæki í sjávarútvegi hafa verið að skila hagnaði. Auðvitað ræður stöðugleikinn í efnahagsmálum úrslitum um að svo vel skuli hafa til tekist en hitt hefur líka skipt miklu máli að það hefur verið stöðugleiki í stjórn fiskveiða þannig að útgerðarfyrirtækin hafa vitað út frá hverju þau hafa mátt ganga. Þannig hafa þau getað skipulagt sig fram í tímann í fjárfestingu og í umsvifum. Það hefur aftur auðveldað þeim að sækja á fjarlæg mið út fyrir 200 mílurnar sem er okkur Íslendingum ómetanlegt til framtíðar vegna þeirra nýju fiskveiðiheimilda sem við þannig ávinnum okkur. Jafnframt hafa framsæknir útgerðarmenn getað einbeitt sér að því að selja þekkingu víðs vegar í öðrum löndum og haslað sér þar völl og er raunar sömu sögu að segja um fisksölufyrirtækin stóru, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Íslenskar sjávarafurðir.

Herra forseti. Ég hef hér gert hið efnahagslega umhverfi að umtalsefni af því að góður efnahagur og batnandi er forsenda þess að við getum búið okkur þau lífskjör, Íslendingar, og það menningarlega umhverfi sem við stefnum að og eigum skilið. Það er forsendan fyrir því að við getum gengið með beint bak inn í tuttugustu og fyrstu öldina.