Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 21:45:03 (6537)

1997-05-14 21:45:03# 121. lþ. 126.1 fundur 331#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[21:45]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Góðir landsmenn. Nú þegar valdatími þessarar ríkisstjórnar sérhyggjunnar er hálfnaður tína stjórnarliðar til það sem þeir telja til afreka. Ég kýs aftur á móti að nefna það sem ríkisstjórnin hefur ekki brugðist við sem er sívaxandi ójöfnuður í þjóðfélaginu. Bilið milli ríkra og fátækra er stöðugt að aukast samanber farrýmin þrjú sem minnst var á áðan. Atvinnuleysi er enn viðvarandi. Um sjö þúsund Íslendingar eru nú án atvinnu og langtímaatvinnuleysi hefur vaxið. Þrátt fyrir góðæri hinna betur settu er misskiptingin meiri. Ég nefni dæmi sem því miður er ekki einsdæmi. Í vikunni hafði 53 ára fjölskyldufaðir samband við mig. Hann hafði orðið fyrir því að missa vinnuna í vetur og þurfti að skrá sig atvinnulausan. Við það lækkuðu ráðstöfunartekjur fjölskyldu hans úr 80.000 kr. á mánuði í um 50.000 kr. Erfið viðbrigði voru fyrir fjölskylduna að láta enda ná saman á atvinnuleysisbótunum. Nú vill svo illa til að þessi maður missir heilsuna eins og getur hent okkur öll. Hann fær kransæðastíflu. Úrskurður læknis er að hann verði að fara í hjartaaðgerð. Eftir slíkri aðgerð er mánaðar bið. Hann er lentur á biðlistunum illræmdu ásamt þúsundum annarra Íslendinga, um sjö þúsund samkvæmt nýjustu tölum. Þann tíma sem hann stendur í þessum veikindum á hann aðeins rétt á greiðslum sjúkradagpeninga sem eru innan við 20.000 kr. á mánuði. Nú lítur út fyrir að hann ásamt fjölskyldu sinni verði að draga fram lífið á þessum smánargreiðslum næstu ellefu mánuði, 20.000 kr. Þetta er á sama tíma og ríkisstjórninni finnst sjálfsagt að greiða hálaunagæðingum sínum í bankastjórnum 25.000 kr. aukalega á dag í dagpeninga í útlöndum, þó svo að allur kostnaður við ferð þeirra og uppihald sé greiddur af bönkunum okkar, og viðbótardagpeningar greiddir fyrir makann ef hann er með í för. Þetta er réttlæti þessarar ríkisstjórnar. Hjartasjúklingurinn fær náðarsamlegast 20.000 kr. á mánuði á meðan hálaunabankastjórinn bætir við launin sín 25.000 kr. á dag við að skreppa til útlanda. Enginn vilji er til að breyta þessu eins og skýrt kom fram í atkvæðagreiðslu í þinginu í gær í bankamálinu um laun bankastjóra þar sem tillaga þar um var felld. Atvinnulausir, sjúkir, aldraðir og öryrkjar eiga ekki málsvara hjá þessari ríkisstjórn.

Annað talandi dæmi um það er að á fundi húsnæðisstjórnar í gær synjuðu húskarlar Páls Péturssonar félmrh. öllum beiðnum hússjóðs Öryrkjabandalagsins um heimild til að byggja 40 félagslegar leiguíbúðir til að reyna að svara knýjandi þörf. Öllum beiðnum var synjað.

Herra forseti. Ótrúlegt virðingarleysi ríkir gagnvart öldruðum og þeim sem þurfa að treysta á samhjálpina sér til framfærslu. Þó búið sé að semja um kjör við þorra launafólks hefur loforð stjórnvalda til lífeyrisþega um að þeir fái sambærilega kjarabót ekki enn verið efnt. Við fjárlagagerðina í fyrra gerði ríkisstjórnin alvarlega atlögu að kjörum lífeyrisþega. Greiðslur og réttindi þeirra voru skert verulega og gjöld í heilbrigðisþjónustunni aukin til muna. Og nú aftur, við síðustu fjárlagagerð, var seilst í vasa þeirra og sjúklinga til að færa til fjármuni í samfélaginu. Að lokum minni ég á lífeyrissjóðsfrv. ríkisstjórnarinnar þar sem vegið er alvarlega að samhjálpinni. Íslenska lífeyriskerfið, eitt besta kerfi í heimi, eins og þeir segja réttilega sjálfir, fær ekki að standa óhaggað. Vinnubrögðin í því máli eru í takt við annað hjá ríkisstjórninni, hrokinn gagnvart þeim sem málið varðar er algjör. Svona vinnubrögð og áherslur sem einkenna helmingaskiptastjórn íhalds og Framsóknar munu verða ríkjandi fram á næstu öld bregðist jafnaðarmenn og félagshyggjufólk ekki skjótt við kalli nýrra kynslóða. Kalli um raunverulegan valkost, öflugan stóran jafnaðarmannaflokk, alla vinstri menn í einni hreyfingu. Krafan er skýlaus.

Vinstri menn í Háskóla Íslands hafa sigrað íhaldið undir merkjum Röskvu í kosningum þar undanfarin sjö ár. Þar hafa jafnaðarmenn átt árangursríkt samstarf og sú kynslóð krefst þess að stjórnmálin á landsvísu svari því kalli. Gróska hefur verið stofnuð til að fylgja kröfunni eftir. Okkur er ekki stætt á að viðhalda úreltu flokkakerfi frá því á fyrri hluta aldarinnar. Persónulegir hagsmunir verða að víkja til hliðar. Þeir sem ekki svara kalli nýrra tíma eru að dæma sig úr leik. Íbúar í nágrannalöndum okkar hafa hafnað áherslum forréttinda hinna fáu. Á Norðurlöndunum eru jafnaðarmannaflokkarnir stórir og öflugir. Nú síðast í Bretlandi hafa áherslur íhaldsmanna beðið lægri hlut fyrir jafnaðarstefnunni með glæsilegum sigri Verkamannaflokksins.

Fylgjum fordæmi þeirra, sameinumst um að gera Ísland að betra landi fyrir alla þegna samfélagsins undir merkjum nýrrar jafnaðarhreyfingar fyrir aldamót.