Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 22:44:23 (6546)

1997-05-14 22:44:23# 121. lþ. 126.1 fundur 331#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[22:44]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Í sumar verða 70 ár liðin frá því að ein allra merkasta en um leið umdeildasta ríkisstjórn Íslandssögunnar tók við völdum. Í um það bil fjögur ár lék samfélagið á reiðiskjálfi vegna aðgerða þessarar stjórnar sem svo sannarlega boðaði nýja tíma. Í forustu hennar voru framsóknar- og hugsjónamennirnir Tryggvi Þórhallsson, sem smíðaði slagorðið ,,allt er betra en íhaldið`` sem framsóknarmenn hafa löngu gleymt, og einnig var þar Jónas Jónsson frá Hriflu. Þeir nutu stuðnings jafnaðarmanna við að koma Íslendingum upp úr mógröfunum, mennta þá og manna, jafna gífurlega ójöfn kjör og setja völdum kaupmanna og útgerðarmanna skorður. Þessir menn og aðrir sem mótuðu stjórnmálin á fyrri hluta þessarar aldar byggðu á þeim hugsjónum nítjándu aldarinnar sem lengstum hafa einkennt pólitískar umræður á Íslandi. Það tókust á hugmyndir um sterkt eða veikt ríkisvald, frelsi einstaklinganna andspænis forræðishyggju, þörf fyrir félagslega aðstoð, samvinnu eða einkarekstur, spillinguna á mölinni miðað við sælu sveitanna, skiptingu auðsins, áhrif og stöðu verkalýðsheyfingarinnar og lýðræðið svo það helsta sé nefnt. Þarna tókust karlar á en fáar konur komu að verki.

Mikið vatn er runnið til sjávar frá þeim tíma er gömlu foringjarnir tókust á og smám saman hafa tíminn, reynslan og þörfin fyrir breytingar sætt sjónarmið og dregið úr þeim andstæðum sem hugsjónir og flokkaskipan byggðist á meðan aðrar andstæður, félagslegur veruleiki og hugsjónir hafa vart náð eyrum ráðandi afla og er þá sama hvert þjóðfélagið er á Vesturlöndum.

Fyrir nýafstaðnar kosningar í Bretlandi sá enska kirkjan sig knúna til að senda stjórnmálaflokkunum tóninn og benda þeim á að í landinu væru milljónir fátæklinga, atvinnuleysingja og barna sem byggju við neyð. Stjórnmálabaráttan í Bretlandi snerist ekki um það fólk og hún snerist ekki heldur um umhverfismál, hvað þá konur og réttindi þeirra eins og í Bandaríkjunum á síðasta ári þótt eflaust sé von talsverðra breytinga á bresku samfélagi. Hún snerist um ítökin á miðjunni og það er greinilegt að margir vilja læra af Tony Blair. Um þessar mundir stunda stjórnmálaflokkar víða um heim sem áður skilgreindu sig ýmist til vinstri eða hægri, skipulegt undanhald inn á miðjuna, enda eftir miklu að slægjast þar. Jafnvel harðsvíruðustu frjálshyggjuflokkar sem hafa farið mikinn á undanförnum árum eru að átta sig á því að skuggahliðar óhefts markaðsbúskapar eru svo dýrkeyptar að ekkert samfélag getur búið við þær. En í stað þess að gera upp við fortíðina, spyrja nýrra spurninga og skilgreina upp á nýtt eru stjórnmálin að verða að einum allsherjar graut þar sem þeim vegnar best sem gengur best að leika í auglýsingum og hitta á réttu loforðin sem slá í gegn. Hugsjónir virðast ekki hátt skrifaðar, málið snýst um það hver fær að setjast að kjötkötlunum, minna máli skiptir til hvers. Duga slík stjórnmál inn í nýja öld? Spegla þau vilja fólksins, vilja meiri hlutans, þarf ekki að efla lýðræðið?

Í jólablaði breska tímaritsins The Economist var því spáð að á næstu öld yrði bylting. Ekki á sviði tækninnar heldur í stjórnmálum. Höfundarnir spá því að íbúar Vesturlanda muni ekki lengur sætta sig við hið takmarkaða fulltrúalýðræði eða hlutalýðræðið sem einkennist af því að fólk greiðir atkvæði á fjögurra ára fresti. Stjórnmálaflokkar bjóða fram á grundvelli ákveðinna hugmynda og fyrirheita en gera svo eitthvað allt annað og hunsa oft og iðulega skoðanir almennings. Beint lýðræði þar sem ákvarðanir verða bornar jafnt og þétt undir fólk er það sem koma skal og þar mun tæknin hjálpa til, segja spekingar The Economist. Eru íslenskir stjórnmálamenn búnir undir þá byltingu?

Eitt mikilvægasta verkefni næstu aldar verða án efa umhverfismál. Við höfum séð á undanförnum árum hve vægi þeirra er að aukast. Það þýðir ekki að skýla sér á bak við skógrækt, vatn og vinda þegar ábyrgð á vaxandi gróðurhúsaáhrifum á í hlut. Allar þjóðir heims eru ábyrgar. Hver einasti einstaklingur verður að leggja sitt af mörkum til að snúa vörn í sókn og endurheimta gæði jarðarinnar. Ef svo heldur fram sem horfir geta frekari breytingar orðið okkur dýrkeyptar bæði í sjó og á landi. Við verðum því að taka okkur á og gerast forustuþjóð í verndun umhverfisins í stað þess að sækjast eftir mengandi stóriðju sem veldur sívaxandi átökum og spillir ímynd lands og lýðs. Velferðarkerfið, skipulag þess og rekstur, verða enn eitt stórverkefnið sem við þurfum að takast á við á nýrri öld.

Í öllum hinum vestræna heimi vex hlutfall aldraðra og það er ljóst að ný tækni í baráttu við sjúkdóma mun kosta mikið fé í framtíðinni þótt hún spari eflaust mikið þegar til lengri tíma er litið. Hverjir eiga að standa undir velferðarkerfinu og hvernig? Þeirri spurningu hefur enn ekki verið svarað.

Þá er ónefnd kvennabaráttan sem eflaust mun taka á sig nýjar myndir á 21. öldinni og skila konum enn fleiri áföngum á göngunni löngu til jafnra tækifæra, sjálfstæðis og raunverulegs kvenfrelsis. Enn eru launamál kvenna í ólestri og þjóðfélaginu til skammar. Við höfum verk að vinna í baráttunni við heimilisofbeldi, misnotkun á börnum og meðferð dómstóla á þeim málum. Heilsa kvenna er að verða eitt helsta viðfangsefni kvennabaráttunnar í heiminum svo ekki sé minnst á hlut kvenna í stjórnkerfinu og stjórnun atvinnulífsins hvort sem það er á sviði fyrirtækjanna eða hreyfinga launafólks. Öll þessi mál munu einkenna stjórnmál 21. aldarinnar auk margra annarra.

Hæstv. forseti. Þessa dagana erum við kvennalistakonur spurðar: Hvað nú? Hvert liggur leiðin? Það ríkir nokkur áhugi á því að sameina núv. stjórnarandstöðuflokka í kosningabandalagi sem freisti þess að ná völdum í næstu kosningum og það er biðlað stíft eins og heyra mátti í kvöld. En innan okkar raða eru deildar meiningar um þá leið. Ná völdum til að gera hvað? Hvert skal halda? Eru biðlarnir reiðubúnir til að ganga inn á braut aukins lýðræðis, hlusta á fólkið, og virða vilja þess? Eru þeir tilbúnir til að gera raunverulega umhverfisvernd að meginviðfangsefni stjórnmálanna og stýra íslensku samfélagi í átt til sjálfbærrar þróunar eins og okkur ber? Eru þeir reiðubúnir til að rétta hlut kvenna á öllum sviðum og greina samfélagið út frá þeirri staðreynd að konur og karlar standa ójafnt að vígi í lífsbaráttunni?

Að lokum, hæstv. forseti. Ég vildi óska þess að við kvennalistakonur fengjum svipað tækifæri og þeir Tryggvi Þórhallsson og Jónas frá Hriflu árið 1927 til að róta ærlega upp í samfélagi okkar. Breyta og bæta þannig að við gætum haldið inn í nýja öld þar sem raunverulegt lýðræði ríkir, samfélag sem tryggir þegnum sínum jafnrétti, jöfnuð og réttlæti. Hverjir vilja leggja okkur og kvennabaráttunni lið á þeirri leið og hvernig? Það er sú spurning sem ég vil fá svar við áður en lengra verður haldið.