Fjárreiður ríkisins

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 10:09:53 (6550)

1997-05-15 10:09:53# 121. lþ. 127.1 fundur 100. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[10:09]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér er lagt til að felld verði niður lagagrein sem opnar á stórfellt valdaafsal Alþingis í hendur framkvæmdarvalds, einstakra ráðherra og þó fyrst og fremst fjmrh. Honum er fengið vald til að gera grundvallarbreytingar á rekstrarfyrirkomulagi almannaþjónustunnar og einkavæða hana ef því er að skipta.

Menn geta haft á því ólíkar skoðanir hvaða fyrirkomulag eigi að hafa á rekstri almannaþjónustunnar og almennt þeirri starfsemi sem rekin er fyrir almannafé. En alþingismenn hafa þann rétt að hafa á þessu skoðun og með atkvæði sínu í þingsal að hafa áhrif á allt fyrirkomulag. Með 30. gr. laganna er verið að svipta alþingismenn áhrifum, í besta falli draga úr þeim, og nú fæst úr því skorið hver vilji alþingismanna sjálfra er. Þeir sem vilja efla lýðræðið styðja þessa tillögu sem nú er verið að greiða atkvæði um. Þeir sem vilja firra sig ábyrgð gagnvart áframhaldandi forstjóravæðingu, áframhaldandi einkavæðingu, eru á móti. Það segir sig sjálft.