Eldi sláturdýra, slátrun og gæðamat sláturafurða

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 11:09:30 (6578)

1997-05-15 11:09:30# 121. lþ. 127.4 fundur 477. mál: #A eldi sláturdýra, slátrun og gæðamat sláturafurða# (heildarlög) frv., Frsm. GÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[11:09]

Frsm. landbn. (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frv. til laga um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum. Landbn. leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Meginhluti þeirra tillagna felst í að orðalag frumvarpsins verði samræmt skilgreiningum sem fram koma í 2. gr. Ástæða er þó til að gera sérstaklega grein fyrir nokkrum af breytingartillögunum.

Rétt þykir að tala alfarið um kjötskoðunarlækna í stað þess að greina á milli héraðsdýralækna og kjötskoðunarlækna. Í því sambandi er lögð til sú breyting á skilgreiningu orðsins ,,kjötskoðunarlæknir`` að talað verði um ,,héraðsdýralækna, eða aðra dýralækna samkvæmt ákvörðun yfirdýralæknis``.

Ég vil hlaupa á nokkrum greinum sem breytingar eru gerðar við til þess að stytta mál mitt sem allra mest.

Lagt er til að í 5. gr. verði tekið skilyrði um að hverju sláturhúsi beri að hafa löggiltar vogir.

Lagt er til að orðalag 2. mgr. 6. gr. verði mildað. Að jafnaði hlýtur sá einn að vera ráðinn sláturhússtjóri er hefur menntun eða reynslu á sviði stjórnunar og rekstrar. Nefndin telur ekki ástæðu til að ráðherra setji sérstakar reglur um hæfisskilyrði þeirra. Þá telur nefndin ekki að svo komnu rök fyrir því að lögfesta afdráttarlaust skilyrði um að slátrarar skuli hafa slátraramenntun. Ekki hefur verið boðið upp á slíka menntun hér á landi til þessa, nema í formi stuttra námskeiða sem haldin hafa verið. Nefndin telur að sjálfsögðu eðlilegt að sláturleyfishafar tryggi að starfsfólk þeirra hafi þá þekkingu sem þarf til að geta sinnt starfi sínu eins og best verður á kosið. Meðan ekki er til staðar fullgild slátraramenntun hér á landi, til samræmis við það sem gerist í nálægum löndum, telur nefndin hins vegar ekki forsendur fyrir því að setja óundanþægt skilyrði um ráðningu slátraramenntaðra manna inn í lögin --- og breytir þar aðeins orðalagi.

Nefndin leggur til að við frumvarpið bætist ákvæði um heimild fyrir ráðherra til að afturkalla löggildingu sláturhúsa ef sláturleyfishafi brýtur gegn ákvæðum laganna eða reglugerða settra samkvæmt þeim.

Í umsögn Landssambands sláturleyfishafa til nefndarinnar kom fram að nauðsyn væri á að marka skýra línu milli verksviðs kjötskoðunarlækna annars vegar, sem heyra undir landbúnaðarráðherra, og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga hins vegar, sem heyrir undir umhverfisráðuneyti. Í dag væri málum þannig háttað að kjötskoðunarlæknir sæi um allt eftirlit annað en hvað varðar aðstöðu starfsfólks, frárennslismál og sýnatökur á vatni sem heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga sæi um. Slíkt tvöfalt kerfi væri dýrara og óhagkvæmara bæði fyrir ríkið og sláturhúsin. Þá hefur borið á því að óljós skil þarna á milli hafi leitt til ágreinings milli kjötskoðunarlækna og heilbrigðiseftirlits í sambandi við einstök sláturhús. Landbúnaðarnefnd tekur undir gagnrýni sláturleyfishafa í þessu sambandi og beinir þeim tilmælum til landbúnaðarráðherra að hann hlutist til um, í samráði við umhverfisráðherra, að koma þessum málum í betra horf.

Um þetta mál er alger samstaða í landbn. og skrifa allir nefndarmenn undir álitið.

Ég legg til að lokum, hæstv. forseti, að þetta frv. verði gert að lögum.