Búnaðargjald

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 11:22:12 (6580)

1997-05-15 11:22:12# 121. lþ. 127.5 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., Frsm. minni hluta LB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[11:22]

Frsm. minni hluta landbn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég geri grein fyrir nefndaráliti minni hluta landbn. sem auk mín hv. þm. Ágúst Einarsson stendur að. Auk þessa geri ég á eftir grein fyrir brtt. minni hlutans við frv. á þskj. 1283.

Minni hlutinn er þeirrar skoðunar að gjaldtaka eins og sú sem hér er ætlað að koma á sé tímaskekkja, hér sé um að ræða einhvers konar aðstöðugjald eða veltuskatt sem leggst á bændur án tillits til afkomu þeirra. Minni hlutinn telur að slíkar álögur eigi að heyra sögunni til og getur ekki stutt frumvarpið, þrátt fyrir að þar sé að finna ákvæði um lækkun sjóðagjalda frá því sem nú er en samkvæmt fyrirliggjandi áætlun er ætlunin að innheimta rúmlega 370 millj. kr. á ári með búnaðargjöldum. Minni hlutinn tekur undir athugasemdir sem fram koma hjá VSÍ um að þeir sem njóti þessarar gjaldtöku séu farnir að líta á þær sem fastar tekjur og að frumvarp til laga um búnaðargjald, sem er ætlað að gilda í framtíðinni, bindi greininni sömu bagga og hafa íþyngt fortíðinni. Því telur minni hlutinn að það frumvarp sem hér er til meðferðar sé aðeins tilraun til að staga í ónýtt millifærslu- og sjóðakerfi landbúnaðarins sem fyrir löngu er gengið sér til húðar. Því getur minni hlutinn ekki stutt frumvarpið í þeirri mynd sem það er

Í fyrsta lagi leggur minni hlutinn áherslu á að hann er algerlega andvígur álögum sem byggjast á veltu búvöruframleiðslunnar án tillits til afkomu hennar. Fyrir nokkrum árum var aðstöðugjald lagt af enda gjaldið í engu samræmi við hugmyndir manna um eðlilega skattheimtu og eftirtektarvert að gamla aðstöðugjaldshugmyndin skuli ganga aftur í þessu frumvarpi. Það er eftirtektarvert að þær hugmyndir um skattheimtu sem allflestir menn hafa kastað fyrir róða skuli núna fyrst vera að koma inn í landbúnaðinn, hugmyndir sem eru hálfrar aldar gamlar og hugmyndir sem menn hafa kastað fyrir róða. Það er sorglegt til þess að vita að þetta sé nýjabrumið hjá þeim landbrh. sem nú situr. Í ljósi erfiðrar afkomu bænda undanfarin ár hlýtur minni hlutinn að gagnrýna þá forgangsröðun, sem birtist í frumvarpinu, að skylda bændur til að greiða til félagsmála- og millifærslukerfa greinarinnar án tillits til afkomu. Í þessu frumvarpi birtist því skýr vilji ríkisstjórnarinnar til að viðhalda félagsmála- og millifærslukerfi landbúnaðarins óbreyttu.

Í öðru lagi bendir minni hlutinn sérstaklega á að samkvæmt áætlun sem lögð var fyrir landbúnaðarnefnd um innheimtu og skiptingu búnaðargjalds er gert ráð fyrir því að tæpar 40 millj. kr. renni til Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Í ársreikningi Framleiðsluráðsins fyrir verðlagsárið 1994--95 kemur fram að eigið fé ráðsins er tæpar 210 millj. kr. og umhugsunarefni hvort það eigi að vera hlutverk ráðsins að safna sjóðum á meðan afkoma bænda er ekki betri en raun ber vitni. Minni hlutinn telur að það hefði verið eðlilegra að skoða hvort ekki hefði mátt reyna að leita leiða til þess að hagræða og spara innan félagsmálakerfisins, t.d. með því að fela hlutverk ráðsins öðrum stofnunum sem fyrir eru í kerfinu, eins og Lánasjóði landbúnaðarins og Hagþjónustunni, og lækka um leið gjaldið um sem nemur hlut Framleiðsluráðs.

Virðulegi forseti. Minni hlutinn leggur fram brtt. um það að lækka búnaðargjaldið sem nemur þeim framlögum sem renna til Framleiðsluráðs og mun ég gera grein fyrir henni hér á eftir.

Í þriðja lagi vekur minni hlutinn sérstaka eftirtekt á því gjaldi sem rennur til Búnaðarsjóðs. Það rennur til Bændasamtaka Íslands, búnaðarsambanda og búgreinafélaga. Með þeirri innheimtu er löggjafinn að kveða á um innheimtu félagsgjalda í gegnum skatta. Minni hlutinn minnir á að þessi innheimtuaðferð fær vart samrýmst hugmyndum manna um félagafrelsi.

Í fjórða lagi minnir minni hlutinn á eftirfarandi álit sjömannanefndar, en að því stóðu bændur ásamt fulltrúum aðila vinnumarkaðarins, um þann hluta búnaðargjaldsins sem ætlað er að renni til Lánasjóðs landbúnaðarins. Taldi sjömannanefndin að ,,forsendur væru brostnar fyrir niðurgreiðslu vaxta á lánsfé með álagningu gjalda á innlenda búvöruframleiðslu. Horfið hafi verið frá slíkum niðurstöðum í öðrum atvinnugreinum, enda ávallt hætta á því að þær ýti undir óarðbærar fjárfestingar.`` Að mati minni hlutans hafa forsendur ekkert breyst frá samþykkt ályktunarinnar.

Virðulegi forseti. Ég hef gert í stuttu máli grein fyrir áliti minni hluta landbn. og mun greina frá þeirri brtt sem er að finna á þskj. 1283. Efnislega gengur hún út á það að sá hluti búnaðargjalds sem renna á til Framleiðsluráðs landbúnaðarins falli niður. Þar er um að ræða 0,275 af þeirri prósentutölu sem ætlað er að innheimta í búnaðargjaldi og mun þýða um það bil að meðaltali 10 þús. kr. lækkun á búnaðargjaldi á hvern bónda á ársvísu. Rökin fyrir þessu eru þau að í ljósi bágrar stöðu bænda og erfiðrar afkomu undanfarin ár, þar sem þeir hafa m.a. þurft að ganga á eigið fé sitt, sé eðlilegt að leitað sé leiða til þess að takmarka þá skattheimtu sem á bændur eru lagðar. Og þegar maður skoðar ársreikning Framleiðsluráðs landbúnaðarins, þá hlýtur manni að verða dálítið bilt við.

Ef maður skoðar rekstrarreikning Framleiðsluráðs kemur í ljós að rekstrargjöld þessarar stofnunar standa ekki undir tekjum. Stofnun sem eitt sinn var einn maður, eitt borð og ein skúffa er núna kostnaður upp á tæpar 115 millj. á ársgrundvelli. Það kostar 115 millj. að reka Framleiðsluráð landbúnaðarins. Þetta eru ekki nýjustu tölur vegna þess að þetta er fyrir verðlagsárið 1. september 1994 til 31. ágúst 1995. Kostnaður við reksturinn á þessum tíma nemur 115 millj. Rekstrartekjur Framleiðsluráðs, ef undan eru skildar fjármunatekjur og fjármunagjöld eru tæpar 100 millj. Þessi þjónustustofnun við landbúnaðinn er dýrari í rekstur en sem nemur þeim tekjum sem henni eru ætlaðar. 115 millj. er það orðið sem eitt sinn var einn maður, eitt borð og ein skúffa.

Ef við förum yfir efnahagsreikning þessa sama ráðs þá er á þessu ári handbært fé Famleiðsluráðs 380 millj. og veltufjármunir samtals 476 millj. 981 þús. kr. Eignir samtals á árinu eru 557 millj. 437 þús. 867 kr. hið sama ár. Á móti þessu eru einhverjar skuldir en niðurstaðan er sú að ráðið, sem ætlað er að þjónusta landbúnaðinn, hefur safnað í sjóði undanfarin ár og eignarstaða ráðsins samkvæmt reikningum, sem eru að vísu orðnir gamlir en ég geri ekki ráð fyrir að hafi lækkað, óráðstafað eigið fé ráðsins eru 209.937.192 kr., óráðstafað eigið fé Framleiðsluráðs. Það eru peningar sem ráðið hefur safnað upp á sama tíma og mjög hefur kreppt að kjörum bænda. Í því ljósi telur minni hlutinn nauðsynlegt að reyna að koma a.m.k. að einhverju leyti til móts við bændur og a.m.k. fella niður þann þátt búnaðargjaldsins sem renna á til Framleiðsluráðsins. Slík ráðstöfun mundi þýða um það bil að bændur fengju 10 þús. kr. skattalækkun á ári að meðaltali og er það ekki mikið ef tillit er tekið til afkomu þeirra undanfarin ár.

Það getur ekki verið, virðulegi forseti, að þjónustuaðilar við atvinnugrein eins og bændur geti haft það sem meginhlutverk að safna upp sjóðum. Það getur ekki gengið. Samkvæmt þeim áætlunum sem liggja fyrir er ætlunin sú að til Framleiðsluráðs landbúnaðarins renni tæpar 40 millj. á næsta ári sem þýðir að verði þetta fellt niður liðu að óbreyttu um það bil 5--6 ár þar til þeir hefðu gengið á þennan sjóð. Ég er sannfærður um að í ljósi þeirrar afkomu sem bændur hafa haft við að glíma undanfarin ár sé ofureðlilegt að þeir gangi á þetta eigið fé a.m.k. og reyni að hagræða og spara í sínum rekstri til þess að hægt sé að lækka álögur á bændur. Ég trúi ekki öðru en að sjálfskipaðir hagsmunagæsluaðilar bænda á Alþingi eins og formaður landbn. og fleiri geti tekið undir það og samþykkt að við lækkum álögur sem nemur 10 þús. kr. á hvern bónda að meðaltali á ári, einkanlega í ljósi þeirrar eignarstöðu sem ég var að lesa hér upp úr og er ársreikningur Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Ekki er það nú verra, eins og kom fram í framsöguræðu hv. formanns landbn., Guðna Ágústssonar, að þær kerfisbreytingar sem hér er þó verið að ráðast í munu þýða minni vinnu fyrir Framleiðsluráð landbúnaðarins og enn frekari rök í þá veru að fella niður þann hluta búnaðargjaldsins sem til ráðsins rennur.

Virðulegi forseti. Ég hef nú farið yfir álit minni hlutans og gert grein fyrir þeirri brtt. sem sá er hér talar og hv. þm. Ágúst Einarsson standa að og geri jafnframt grein fyrir því að þingflokkur jafnaðarmanna mun ekki geta stutt það frv. í heild sinni sem hér liggur fyrir. Hann mun væntanlega sitja hjá við atkvæðagreiðslu og réttlætir þá atkvæðagreiðslu þannig að það er þó verið að lækka heildarsjóðagjöld sem á bændur eru lögð.