Búnaðargjald

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 11:35:26 (6581)

1997-05-15 11:35:26# 121. lþ. 127.5 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., EgJ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[11:35]

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Eins og nefndarálit sem hér hafa verið lögð fram bera með sér hef ég ekki skrifað nafn mitt þar undir. Ég verð að segja eins og er að það gegnir nokkurri furðu hvað lögð er mikil áhersla á að hraða afgreiðslu þessa máls. Auðvitað hefði verið hægur vandi að koma á breytingu til samræmis við það sem tekið er upp við breytingar á Stofnlánadeild landbúnaðarins í það horf sem frv. um búnaðarsjóð gerir ráð fyrir þrátt fyrir að þetta frv. væri ekki látið ganga jafnhratt fram og raun ber vitni.

Ástæðan er auðvitað sú að um þetta frv. er mikill ágreiningur innan bændastéttarinnar og í rauninni tókst ekki að afgreiða þetta mál á búnaðarþingi. Hins vegar hefur, eins og kom fram hjá frsm., hv. 2. þm. Suðurl., verið komist að niðurstöðu milli forsvarsmanna búgreinasamtakanna og forsvarsmanna Bændasamtakanna. Ég hygg að í þeim hópi hafi ekki verið t.d. fulltrúar búnaðarsambandanna, svo ég nefni dæmi. En málið hefur það tæpa stöðu í umræðu innan landbúnaðarins að menn treysta sér ekki til þess að taka áhættu um frestun þess af þeirri ástæðu. Raunar ber þetta frv. þess merki að þar hafa menn ekki treyst sér til að taka á stórum og afgerandi málum sem þó eru í umræðunni innan bændastéttarinnar.

Það er óumdeilt að þetta frv. og þessar breytingar eru að því leyti jákvæðar að gjöld til Stofnlánadeildar landbúnaðarins lækka og í því felst að sjálfsögðu umtalsverður sparnaður og líka er óumdeilanlegt að það er farin greiðari leið að því er varðar innheimtuna. Á móti kemur að líka er farin önnur leið við álagningu og það er vissulega óhætt að setja stórt spurningarmerki við þá ákvörðun í þá veru að trúlega muni gjöld færast frá heildsölu og þar af leiðandi frá útsöluverði vörunnar yfir í skattlagningu á bóndann sjálfan. Það er alveg ljóst af þeirri umræðu sem fram hefur farið að af þessu hafa menn nokkrar áhyggjur.

Til þess að gæta alls réttlætis í þeirri frásögn, þá leyfi ég mér að vitna í greinargerð Sigurgeirs Þorgeirssonar, framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands, en þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

,,Ætla verður að í frjálsu verðlagskerfi séu afurðir verðlagðar út á markaðinn eins og verðþol hans er talið leyfa, en við verðlagningu milli bónda og afurðastöðvar hlýtur að vera tekið tillit til þess hvorum aðilanum ber að greiða búnaðargjaldið.``

Það hlýtur sem sagt að vera tekið tillit til þess hvort það er afurðastöðin eða bóndinn sem afhendir til skattstjórans þessi 2,65% af afurðaverðinu sem hann á að reiða af höndum. Ég hef satt að segja miklar efasemdir um að það verði afurðastöðin sem gerir það heldur falli það í hlut bóndans sjálfs. Í þessari tilvitnun koma reyndar greinilega fram efasemdir um hvernig mál muni skipast með þessum hætti.

Nú er það líka svo að landbn. Alþingis hafa borist ýmsar ábendingar í þessum efnum. Sérstaklega er athyglisvert það sem kemur fram hjá Búnaðarsambandi Vestfjarða og Búnaðarsambandi Dalamanna. Með því að umsögn Búnaðarsambands Dalamanna er styttri en Búnaðarsambands Vestfjarða ætla ég að leyfa mér að lesa hana í heild sinni. Í ályktuninni segir:

,,Aðalfundur Búnaðarsambands Dalamanna, haldinn 1. maí 1997, mótmælir aukinni skattheimtu sem felst í álagningu búnaðargjalds þar sem engin trygging er fyrir því að bændur fái borið gjaldið uppi í hærra afurðaverði.`` Þetta segir Búnaðarsamband Dalamanna.

Svo kemur stutt en líka afar skýr greinargerð. Þar segir svo:

,,Við kynningu á frv. er því haldið mjög á lofti að verið sé að lækka heildarálagningu sjóðagjalda. Vissulega er það rétt en með því er ekki öll sagan sögð því verið er að færa alla álagningu, og þar með talið innheimtu, sjóðagjalda beint á framleiðendur. Verði verðlagning búvöru, sem nú er háð verðlagsákvæðum, gefin frjáls er hæpið að bændur fái gjaldið borið upp gegnum verðlagið. Það þýðir aukna gjaldheimtu en á því þurfa bændur síst að halda í dag.

Einnig má á það benda að hæpið er að hafa sömu gjalddaga á búnaðargjaldi og virðisaukaskatti því að í sumum tilvikum er ekki búið að greiða bændum allt andvirði framleiðslunnar sem gjaldið er lagt á á gjalddaga virðisaukaskatta. Að lokum skal á það bent að sú breyting sem lögð er til í álagningu og innheimtu sjóðagjalda með frv. til laga um búnaðargjald kann að hafa áhrif víða innan landbúnaðarkerfisins og í ljósi þess hverjar afleiðingarnar kunna að verða ber landbn. Alþingis að skoða málið.``

[11:45]

Þetta segir aðalfundur Búnaðarsambands Dalamanna um málið og er greinilegt af þessum orðum að mikill beygur er í þeim bændum um hvernig þessu gjaldi verði komið til skila.

Segja má að svipað komi fram hjá Búnaðarsambandi Vestfjarða en ég ætla hins vegar að tilgreina vissar röksemdir sem koma fram í umsögn Búnaðarsambands Vestfirðinga. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta, það er 2. liður þessarar greinargerðar:

,,Vafasamt er að samfara frjálsu verðlagi allra búvara að búnaðargjald frekar en raunar annar kostnaður bús lendi ekki sem frádrag á launatekjum framleiðenda þó annað kunni að vera ætlunin. Þar er þó frjálsu verðlagi um að kenna frekar en umræddum löggjörningi. Jafnframt má benda á ef greiðslur til bænda hækka ekki vegna breytinganna um sem nemur tilfærslu sjóðagjalda af heildsölustigi yfir á framleiðslustig, verði tilfærslan á kostnað fjölskyldulauna.`` Og nú bið ég hv. þm. að taka vel eftir.

,,Samkvæmt búreikningum 1996 kostar tilfærslan á sauðfjárbúi að meðaltali 35.482 kr. eða 4,92% af launagetu alls. Á kúabúi mundi tilfærslan kosta 87.552 kr. eða 5,0% af allri launagreiðslu búsins. Laun fjölskyldu mundu í flestum tilvikum lækka um hærra hlutfall vegna aðkeyptrar vinnu.``

Í greinargerð Búnaðarsambands Vestfjarða koma fram fleiri afar athyglisverðar ábendingar og það var ljóst að þessar tvær umsagnir af þeim umsögnum sem nefndinni bárust skáru sig úr efnislega þegar rætt var um málið og skýringar gefnar.

En þá er aftur eðlilegt að spyrja: Hvers vegna er verið að gera þessar breytingar? Hver er þörfin fyrir breytingarnar? Hvers vegna er verið að taka þá áhættu að færa þessi gjöld til greiðslu á framleiðendastigi í stað þess að hafa þær óbreyttar frá því sem verið hefur? Þær tvær búgreinar, sem hér er fjallað sérstaklega um, sauðfjárræktin og nautgriparæktin, greiða af búnaðargjöldunum 75--80%, 4/5 hluta af þessum gjöldum. Hver eru þessi vandamál við innheimtuna? Gagnvart þessum greinum eru þau nákvæmlega ekki nein. Þetta hefur verið tekið af á heildsölustigi að langstærstum hluta og ekki hafa verið nein vandkvæði í sambandi við þá innheimtu. Vandkvæðin hafa verið við innheimtu á þeim gjöldum sem skila um það bil 1/5 af þessum sköttum. Þá er það spurningin, hvers vegna eiga sauðfjárbændur og nautgripabændur að líða fyrir það?

Ég hef ekki enn fengið svar við því hvers vegna þessarar breytingar sé þörf gagnvart þeim sem hafa verið skilamenn með þessi gjöld. Því í ósköpunum mega þeir þá ekki vera í friði með það fyrirkomulag sem þeir hafa haft og þau vandkvæði sem eru á innheimtunni gagnvart öðrum gjöldum yrðu þá tekin með öðrum hætti, t.d. þeim sem hér er lagður til. Ekki mælir nokkur skapaður hlutur á móti því að þessi tilhögun yrði viðhöfð og að sú áhætta ekki tekin sem hér er horfið til að skerða tekjur þessara greina um 4--5% og hefur nú ýmsum þótt nóg um. En menn gefa sér ekki tíma eða ráðrúm til þess að fjalla um málið með þessum hætti. Staðan er svo þröng vegna þess að um málið er innan bændastéttarinnar afar mikill ágreiningur. Af þessari ástæðu er ég á móti því að afgreiða málið á þessu þingi.

Í umsögnum komu reyndar fram aðrar afar þarfar ábendingar sem mikil nauðsyn hefði verið að fara betur yfir og taka afstöðu til. Ég bendi t.d. á umsögn loðdýrabændanna í þessum efnum þar sem bent er á að sú grein sé háð verðlagi á erlendum mörkuðum, sé samkeppnisgrein, og það koma fram ábendingar um það einmitt í áliti að eðlilegra hefði verið að hafa gjaldheimtuna með tilliti til þess að þessi búgrein er samkeppnisgrein sem lýtur markaðslögmálum erlendis. Það komu einmitt fram ábendingar um það í þessu áliti að það væri betri kostur fyrir þá grein að hafa meira tillegg til tryggingagjalds fyrir greinina en t.d. til greiðslu kostnaðar við Framleiðsluráð landbúnaðarins sem hefur nákvæmlega ekki nokkur einustu afskipti, hvorki til né frá, gagnvart þessari búgrein. Menn verða auðvitað að skoða málin í því ljósi hvernig aðstæðurnar eru í þessum efnum.

Á sama hátt koma fram ábendingar frá Landssambandi kartöflubænda um að þeir njóti t.d. ekki þjónustu af hendi Framleiðsluráðs og þeir telja að þar sé um að ræða algert gjafaframlag á peningum eins og það er þarna fram sett. En umræðan náði ekkert inn á þessi svið, ekkert inn á þennan breytileika. Umræðan náði einungis um það hvernig hægt væri að skipta peningunum. Um það var sá fundur haldinn sem frsm. meiri hlutans sagði frá áðan, um það hvernig væri hægt að skipta fjármununum. En efnisleg umræða um þessi efni hefur ekki enn þá verið skýrð fyrir mér og ég hlýddi ekki á hana í umfjöllun nefndarinnar um málið.

Þetta er annar sá þáttur sem gerir það að verkum að ég styð ekki frv. Hann er bæði ónákvæmur að því er varðar starfsskilyrði hinna ýmsu greina og hann felur í sér a.m.k. afar mikla áhættu á því að tekjur sauðfjárbænda og bænda í nautgriparækt muni lækka vegna þessarar ráðstöfunar um um það bil 5% eins og er rökstutt með afar skýrum hætti í umsögn Búnaðarsambands Vestfirðinga um þetta mál.

Nú kem ég að öðrum meginþætti málsins sem gerir það að verkum að ég er líka andvígur því. Hér er verið að sýsla um fjármuni. Í umsögn Búnaðarsambands Vestfjarða er líka rökstutt að þessi skattheimta muni leiða til aukinnar skattheimtu upp á tæpar 20 millj. kr. 20 millj. eru þó alltaf 20 millj. og menn hafa passað sig á því að vera þar fremur rífir á. Þá á ég við að sjálfsögðu að frá því er dregið það sem lagt er af vegna búnaðargjaldsins. Við höfum staðið okkur vel á Alþingi í þeim efnum og svo að hæstv. landbrh. taki þessi orð mín ekki of mikið til sín er vert að undirstrika það að Sjálfstfl. hefur farið með fjármál ríkisins og líka með landbúnaðarmál í fjögur ár samfleytt. Það hefur gerst á síðustu árum að til búnaðarsambandanna, sem er náttúrlega sá vettvangur þar sem bændur hafa helst eitthvað að sækja í, hafa framlög verið dregin saman við fjárlagagerð um það bil um 20 millj. kr., reyndar þó meira þegar litið er til verðlags og annarra þátta. Ég geri ráð fyrir því að samdrátturinn í stuðningsaðgerðum við landbúnaðinn, við búnaðarsamböndin, nemi um 25--30 millj. kr. og hef ég satt að segja ekki séð betur gengið annars staðar fram í sparnaði þegar litið er til skiptingar fjár sem gengur inn í landbúnaðinn að þessu leyti.

[12:00]

Ég lagði það til --- og alþm., a.m.k. sumir hverjir geta varla haft góða samvisku gagnvart þessari þróun mála og víst er að sá sem hér mælir er í þeirra hópi --- að gerðar yrðu lagfæringar á þessu og við þá skiptingu sem hér er verið að fjalla um yrði hlutur búnaðarsambandanna lagfærður. Ég hef grun um það að þessi víðáttumikli fundur sem menn hafa svo mikið verið að tala um, sáttafundurinn mikli um þessi efni, hafi ekki kallað til fulltrúa búnaðarsambandanna. Ég er helst á því að þeir hafi verið látnir sitja heima þegar góssinu var skipt.

En í þeim efnum benti ég sérstaklega á og hafði sérstaklega lagt til að hlutur Framleiðsluráðs landbúnaðarins væri minnkaður. Yfir það var farið af mér og formanni nefndarinnar að þar hefur býsna vel verið gefið á garðann. Og ég minni sérstaklega á í þessum efnum að þegar fram fóru umræður um sameiningu Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands, þá voru þar uppi háværar yfirlýsingar um að Framleiðsluráð landbúnaðarins gengi inn í þá sameiningu. Reyndar hafði verið bent á það áður að það væri eðlilegt að Framleiðsluráðið sameinaðist Búnaðarfélagi Íslands vegna þess hversu starfsemi þessara tveggja stofnana væri lík. En eftir að sameining hefur orðið milli Búnaðarfélagsins og Stéttarsambandsins hefur þessi umræða fallið niður, enda eru þeir sem nú stjórna Framleiðsluráðinu, eru þar í stjórn, þeir hinir sömu, sumir hverjir a.m.k., og höfðu uppi háværustu tillögurnar um að gera breytingar á skipun Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Það er náttúrlega óþolandi með öllu að Bændasamtökin ljúki ekki þessu sameiningarferli og að höfuðstöðvarnar leggi sig fram um að spara í sínum eigin rekstri. Mér er t.d. ekki ljóst, hæstv. landbrh., hvaðan ráð koma við lokaákvörðun landbrn. um tillögugerð að skiptingu þeirra fjármuna sem fara í hin einstöku verkefni. En ég sé þó að höfuðstöðvarnar hér syðra hafa farið betur út úr þeirri skiptingu heldur en búnaðarsamböndin þar sem starfið er á vettvangi.

Nú var að sjálfsögðu hægt að rétta þetta nokkuð af, t.d. að búnaðarsamböndin fengju um 25 millj. af þeim 38 millj. sem Framleiðsluráði landbúnaðarins er ætlað í þessari skiptingu og með það fjármagn sem þá væri enn eftir mundu Bændasamtökin geta náð fram með hagræðingu því starfi sem þessum samtökum gagnast í þessum efnum. Mér er alveg ljóst að það er vilji fyrir þessu meðal ýmissa áhrifamanna í Bændasamtökum Íslands. En menn hafa ekki treyst sér að taka á þessu máli. Menn hafa hins vegar treyst sér til að skera niður búnaðarsamböndin um 25 millj. á allra síðustu árum. Þar hefur menn ekki vantað þrek. Og það var önnur megináhersla mín við þessa tillögugerð að Bændasamtökin fengju að standa frammi fyrir því að það væri vilji fyrir því hér á Alþingi að hjálpa til á vettvangi þar sem búnaðarsamböndin væru annars vegar og þar sem væri í rauninni það eina afl sem getur veitt hinum almenna bónda umtalsverðan stuðning. En auðvitað gekk þetta ekki fram.

Kannski ætlar Framsfl., svo ég nefni hann hér á nafn, hæstv. landbrh. --- sá flokkur er hvort sem er í fýlu við mig og þykir mér það nú ekki neitt af hinu verra --- að laga þetta til við fjárlagagerðina sem nú fer brátt í hönd. Ef svo er ekki, því í ósköpunum mátti þetta mál þá ekki bíða og vera skoðað í heild sinni með það fyrir augum að búnaðarsamböndin. sem er sá vettvangsaðili sem er náttúrlega langnæstur bændunum, fengju hér leiðréttingar sinna mála. Það er kannski ætlunin að ganga enn þá nær þeim heldur en þegar er orðið. Og eitthvað hef ég séð á blöðum um einhverjar leiðbeiningastöðvar sem hefðu það þá væntanlega að markmiði að fækka smærri búnaðarsamböndunum eða að færa starfsemina eitthvað meira saman sem ég hef nú reyndar heyrt áður og mundi auðvitað verða mjög til þess að torvelda starfsemi minni búnaðarsambandanna sem er þó sá vettvangsaðili sem bændur hafa helst aðgang að.

Virðulegi forseti. Ég vona að það liggi ljóst fyrir hver afstaða mín er í þessum efnum. Mér er að sjálfsögðu ljóst að bændur þurfa að greiða búnaðargjald í framtíðinni en það er ekki sama með hvaða hætti það er gert. Og þegar ég spurði um það á fundi í landbn. hvernig menn ætluðu að laga fyrir búnaðarsamböndunum á grundvelli þessarar skiptingar kom svar frá forustumönnum í Bændasamtökum Íslands um að ef þetta dygði ekki, þá yrðu þau að láta bændur borga hærri árstillegg til samtaka sinna heldur en verið hefur. Þetta læt ég því nægja, virðulegi forseti, og vona að allir megi skilja hverjar þær tvær ástæður eru sem ég tilgreini fyrir þeirri afstöðu sem ég hef tekið að vera á móti þessu frv. og ég hlýt að mótmæla þeim málatilbúnaði sem að baki liggur.