Búnaðargjald

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 12:19:01 (6589)

1997-05-15 12:19:01# 121. lþ. 127.5 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., EgJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[12:19]

Egill Jónsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að fagna þeirri ábendingu sem hefur komið fram hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni um að þetta mál verði rætt á þingflokksfundi Sjálfstfl. Ég kann ekki við að hv. 2. þm. Suðurl. kveði upp úr um það hvort þess sé þörf eða ekki þörf. Ég held að það sé sjálfsagður kostur að þingflokkur Sjálfstfl. starfi án fyrirmæla frá hv. 2. þm. Suðurl. Þótt hann sé nú nokkuð rasssíður um þessar mundir er hitt náttúrlega alveg ljóst að hann getur ekki farið fyrir í þeim efnum hvernig sjálfstæðismenn haga umræðu sinni. Þar af leiðandi teldi ég það í rauninni afar góðan kost að málinu yrði ekki lokið. En ég skal ekki gera mál úr því. Það liggur fyrir ósk um það frá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að málið verði rætt á þingflokksfundi og ég vek athygli á því að annar þingmaður Sjálfstfl. úr landbn., þó hv. þm. Guðni Ágústsson hefði ekki getið þess, er með fyrirvara við þetta mál eins og hann hefur sjálfur lýst hér. Málið er á engan hátt einfalt en erindi mitt var fyrst og fremst að mótmæla því að hv. 2. þm. Suðurl. ætlaði að taka að sér að stjórna málarekstri Sjálfstfl. í þinginu.