Búnaðargjald

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 12:21:32 (6590)

1997-05-15 12:21:32# 121. lþ. 127.5 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., landbrh. (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[12:21]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Út af þeirri hugmynd sem hefur komið fram um það að fresta umræðunum vil ég segja að ég skil hvorki né sé nokkur rök fyrir því máli. Það eru engin þau tíðindi uppi sem leiða til þess. Auðvitað er löngu ljóst að ekki er fullkomin samstaða hjá stjórnarliðinu við afgreiðslu málsins og það hefur verið rakið rækilega í umræðunni og komið fram. Ekkert nýtt er að gerast í því máli.

Í öðru lagi langar mig að benda á að í morgun höfum við afgreitt í atkvæðagreiðslu 2. og 3. dagskrármálið þar sem því var líka svo háttað að það voru líka skiptar skoðanir milli stjórnarliða um afgreiðslu máls og málin fóru eðlilega fram eins og þingsköp gera ráð fyrir. Ég minni á það af því að Lánasjóður landbúnaðarins var tengdur umræðunni um málið sem er á dagskrá núna. Ég hygg að atkvæði hafi fallið þannig að flestallar greinar hafi verið samþykktar með 38--40 atkvæðum. Því er ríflegur meiri hluti fyrir málinu og þar sem þessi mál eru mjög nátengd ímynda ég mér að það sé svipað með stuðning við það mál sem er nú á dagskrá og teldi því alveg fráleitt að umræðunni væri frestað vegna þess. Hvað svo þeir sjálfstæðismenn vilja ræða á þingflokksfundum sínum finnst mér það sjálfgefið að hafi þeir ekki rætt þetta mál og afstöðu einstakra manna þar þá er það algerlega þeirra mál hvernig þeir haga vinnubrögðum sínum og ég vona að hafi þeir ekki gert það nú þegar þá geri þeir það á einhverju stigi. Ég hef enga athugasemd við það að færa en það getur hins vegar ekki tafið þessi þingstörf því að það er ekkert nýtt að gerast í þessum umræðum. (Gripið fram í.) Nei, það geri ég ekki. Ég held að það hafi verið einhver misskilningur í því að hann hafi ætlað sér að stjórna þingflokki Sjálfstfl. Ég held að það hljóti eitthvað að hafa farið á milli mála. Ég heyrði það að minnsta kosti ekki og ég held að það sé alveg fráleitt. Auðvitað stjórna þeir sínum málum sjálfir.