Framkvæmd samræmdra prófa í grunnskóla

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 13:46:56 (6603)

1997-05-15 13:46:56# 121. lþ. 127.95 fundur 337#B framkvæmd samræmdra prófa í grunnskóla# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[13:46]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Menntmrn. hefur unnið reglur um próftöku fatlaðra nemenda, þeirra sem eiga í sértækum námserfiðleikum og annarra sem ekki geta fært sér í nyt hefðbundnar prófaðferðir. Reglurnar gilda um lokapróf milli bekkja og skólastigs, um opinber samræmd próf og lokapróf í grunn-, framhalds- og háskólum. Samkvæmt þeim má víkja frá hefðbundnum aðferðum við próftöku nemendanna.

Þessar reglur virðast virtar að vettugi við framkvæmd samræmdra prófa. Nemendur með lesblindu, þ.e. dyslexíu, eiga mjög erfitt með að tileinka sér lesmál. Samkvæmt upplýsingum skólastjóra grunnskóla í Reykjavík var slíkum nemendum gert að lesa texta á íslenskuprófi á sama tíma, þ.e. jafnlöngum tíma og aðrir þrátt fyrir þá vitneskju að það er vonlaus staða fyrir marga þá nemendur. Samkvæmt fyrrgreindum reglum er hins vegar heimilt að veita þeim nemendum 50% lengri próftíma, svo og má prófa með upplestri eða af myndbandi.

Annar hópur sem viðurkennt er að þurfi sértækar aðferðir við prófúrlausnir er heyrnarlausir. Nemendum Vesturhlíðarskóla var gert að taka stafsetningarpróf með því að fylla í eyður á prófblaði eftir varalestri þrátt fyrir að aðeins 70% af því sem sagt og lesið er af vörum skilst af heyrnarlausum. Því hefur verið komið á framfæri við Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála að heyrnarlausir verði að fá próf sem þeir geta tekið á eigin forsendum, með táknmáli, á tölvutæku formi eða í formi myndbands. Þannig próf verða ekki léttari en þau verða fólki með sértæka fötlun aðgengilegri. Óskum um að aðlaga prófin að þörfum þessara nemenda hefur verið synjað á sama tíma og hópi ungmenna er veitt undanþága frá próftöku vegna íþróttaiðkana erlendis.

Virðulegi forseti. Ég tek undir með málshefjanda, Svanfríði Jónasdóttur, að eðlisbreytingar á samræmdum prófum samkvæmt ákvörðun menntmrn. kalla bæði á faglegri vinnubrögð og vandaðra námsmat.