Framkvæmd samræmdra prófa í grunnskóla

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 13:51:58 (6605)

1997-05-15 13:51:58# 121. lþ. 127.95 fundur 337#B framkvæmd samræmdra prófa í grunnskóla# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[13:51]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur fyrir að vekja máls á þessu máli, þ.e. samræmdum prófum. Ég er ekki sammála hv. þm. sem síðast talaði um það að vera á móti birtingu einkunna á samræmdum prófum. Ég held að birting einkunna á samræmdum prófum sé mjög til góðs ef við vegum og metum rétt þær forsendur sem liggja að baki.

Það er auðvitað mjög alvarlegt mál þegar próf klúðrast sinn eftir sinn eins og virðist hafa gerst núna í stærðfræðiprófi á samræmdum prófum. Það er mjög alvarlegt mál og það er einnig mjög alvarlegt mál ef satt reynist að menn séu að leggja höfuðáherslu á samræmdu greinarnar á kostnað hinna verklegu greina. Og það er alveg ljóst að það hefur tíðkast hér á landi.

Mér þótti líka mjög merkilegt að fylgjast með viðtali í sjónvarpinu við ágætan stærðfræðikennara, eftir að þeir héldu fund um samræmdu stærðfræðiprófin ekki alls fyrir löngu, þar sem talað var um að mönnum þætti eðlilegt að gefa nokkurs konar vetrareinkunn, sleppa þessum samræmdu prófum og þá var þessi ágæti kennari spurður hvort ekki væri ástæða til að endurtaka prófin. Þá sagði kennarinn: ,,Nei, það kemur ekki til greina. Við getum ekki lagt það á nemendur.`` Þetta fannst mér mjög sérkennilegt vegna þess að ég tel að stærðfræðikennslan ætti að vera þannig að eitthvað sæti eftir í kollinum á blessuðum krökkunum meðan þau eru að læra til stærðfræðiprófs, en mér fannst þetta kannski dálítið einkennandi fyrir hugsunarhátt okkar til skólans þegar sagt var að við gætum ekki lagt þetta á nemendur.