Framkvæmd samræmdra prófa í grunnskóla

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 13:54:13 (6606)

1997-05-15 13:54:13# 121. lþ. 127.95 fundur 337#B framkvæmd samræmdra prófa í grunnskóla# (umræður utan dagskrár), ÓÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[13:54]

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég er hlynntur því að samræmd próf séu í skólum, en það er mikil nauðsyn að prófin séu í samræmi við kennsluna. Það virðist blasa við sem staðreynd að í þessu tilfelli hafa þeir sem sömdu prófin ekki áttað sig á því hvernig kennslan var í íslenskum skólum í því námsefni sem um var að ræða.

Ég held einnig að það hljóti að vera mikið umhugsunarefni þegar verið er að birta niðurstöður samræmdra prófa að setja þær fram á þann hátt sem verið hefur. Það liggur við að það verði kappsmál skólanna að reka úr skóla þá sem standa sig illa. Margir þjónustusamningar hafa verið gerðir af hálfu Reykjavíkurborgar þar sem nemendur hafa verið sendir út á land í stórum stíl. Ég veit ekki hvar þeir eru taldir með þegar þetta er metið og margt fleira mætti nefna.

Það sem er mest aðkallandi varðandi próf í skólum til að átta sig á framtíðarmöguleikum nemenda er að mínu viti að fram fari hæfileikapróf. Það er þúsund sinnum meira virði að komast að því hvað nemandinn getur en hvað hann getur ekki. Að reyna að átta sig á hvar mestu hæfileikar nemandans liggja og hvert er eðlilegast að skólinn reyni að beina farvegi hans til náms í framtíðinni. Ég held að þetta hafi brugðist í íslensku skólakerfi og afleiðingarnar eru þær að fjöldaálit hefur haft mótandi áhrif á hvað við viljum að nemendur læri. Á Íslandi er það nú svo að jafnvel verknámsskólarnir hafa orðið að hörðustu bóknámsskólum.