Framkvæmd samræmdra prófa í grunnskóla

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 13:56:51 (6607)

1997-05-15 13:56:51# 121. lþ. 127.95 fundur 337#B framkvæmd samræmdra prófa í grunnskóla# (umræður utan dagskrár), Flm. SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[13:56]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann kom með við þeim spurningum og vangaveltum sem ég setti fram. Sá ítarlegi verksamningur sem hann lýsti að verið væri að gera sýnist mér að sé mjög jákvæð tilraun til að mæta þeirri gagnrýni sem uppi hefur verið og sérstaklega líst mér vel á það gæðamat sem hann greindi okkur frá og átti að fara fram m.a. með aðstoð kennara og nemenda. Þetta sýnist mér að horfi allt til bóta.

Ég vil hins vegar nota lokaorð mín til að tæpa örlítið á birtingu upplýsinga. Það er ljóst að birting upplýsinga sem leiðir af sér samanburð á milli skóla gerir alveg nýjar kröfur, ekki bara til skólanna, ekki bara til kennaranna heldur líka til ráðuneytisins, gerir nýjar kröfur vegna þess að annars konar metnaður myndast og stýringaráhrif prófanna verða mun meiri en áður. Það er staðreynd sem við getum ekki horft fram hjá og þyrftum kannski að velta örlítið fyrir okkur hvernig við viljum bregðast við og vísa ég þá einnig í það sem hv. þm. Hjálmar Árnason nefndi áðan að e.t.v er óheppilegt að samræmd próf hafi tengsl við brautskráningu sem bætist síðan ofan á annan þrýsting.

Mér finnst hins vegar að við þyrftum að ræða örlítið betur um þennan samanburð. Ég veit ekki hvort það hefur verið skoðað á vegum ráðuneytisins hvort einhverjar ákveðnar skólagerðir eða hvort einhver ákveðin samfélög virðast fóstra ,,betri eða verri`` skóla en að jafnaði gerist, en ég tel mjög nauðsynlegt fyrir okkur að skoða þessar niðurstöður, að gaumgæfa þær vegna þess að þetta er til lítils ef við drögum ekki af því ályktanir og bregðumst rétt við.