Búnaðargjald

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 14:04:18 (6609)

1997-05-15 14:04:18# 121. lþ. 127.5 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[14:04]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Hér er búnaðargjald til umfjöllunar samkvæmt því frv. sem fyrir liggur. Þessi lagasetning er mjög til bóta og ég fylgi málinu í megindráttum. Um er að ræða einföldun, sparnað og breytta innheimtu. Við þingmenn hljótum allir að taka undir það að ástæða sé til að einfalda hlutina og spara. Hins vegar hefur umræðan um málið farið að snúast um aðra hluti en frv. fjallar um.

Hv. þm. eru að finna að því sem ekki er í frv. Það er aftur á móti næsta þrep. Vissulega get ég áréttað það líka að fyrirvari minn við þetta mál fjallar að hluta til um hver næstu skref eru í þessu máli. En í það heila tekið er verið að bæta innheimtu og auka skilvirkni en ég mun síðar í ræðu minni koma að því hvers vegna ég hef fyrirvara.

Fyrst er til að taka að framleiðendur allir greiði eitt gjald. Í umsögn um frv. segir frá ríkisskattstjóra, með leyfi forseta:

,,Frumvarpi þessu er ætlað að einfalda og sameina álagningu og innheimtu þriggja sjóðagjalda sem lögð eru á aðila í landbúnaði og um leið að gera hana öruggari. Lagt er til að búnaðargjald verði lagt á með almennum þinggjöldum líkt og markaðsgjald og iðnaðargjöld og gjaldstofn verði eins og gjaldstofn markaðsgjalds með frávikum.``

Síðar segir svo, með leyfi forseta: ,,Að mati ríkisskattstjóra er frumvarpið og sú hugmynd sem það byggir á vænleg til að ná framsettum markmiðum, þ.e. að einfalda álagningu og innheimtu gjalda og gera hana um leið tryggari. Á hinn bóginn er jafnljóst að með samþykkt þessa frumvarps er nýtt verkefni fært inn í skattkerfið sem krefst tíma og mannafla í einhverjum mæli og því er fyrir miklu við upptöku þessa gjalds líkt og ávallt þegar upp er tekinn nýr skattur að vandað sé til verka og einfaldleiki hafður að leiðarljósi. Jafnframt að lagatextinn sé skýr og bjóði ekki upp á túlkun umfram það sem eðlilegt er.``

Þarna er verið að færa verkefni til skattkerfisins, sem áður hefur verið á hendi Bændasamtakanna eða Framleiðsluráðs og um leið að einfalda hjá þeim.

Sama hlutfall er af gjaldstofni hjá öllum bændum en bændur með litla veltu munu greiða fast gjald. Bændur munu hins vegar á ólíkan hátt njóta þeirrar þjónustu sem gjaldið veitir rétt til. Þar er fyrst til að taka hlut Lánasjóðs landbúnaðarins í gjaldinu. Lánsréttur bænda í sumum búgreinum hefur ekki haldist í hendur við framlög til Stofnlánadeildar landbúnaðarins fram að þessu. Því er sú spurning fullkomlega réttmæt hvort niðurgreiða eigi lánsfé til landbúnaðarins á þennan hátt og það er eðlileg spurning hjá hv. þm. Ágústi Einarssyni og Lúðvík Bergvinssyni. Að vísu þarf að hafa í huga að einnig er verið að greiða niður vexti af þegar teknum lánum. Eins og staða sauðfjárræktarinnar er í dag og jafnvel nautgriparæktarinnar líka eiga bændur þess ekki kost að njóta þeirra lánskjara sem eru í boði hjá lánasjóði. Miðað við skiptinguna milli búgreina eins og hún liggur fyrir í frv. um búnaðargjald munu nautgripa- og sauðfjárrækt greiða niður lán í öðrum búgreinum. Vissulega er það rétt sem fram hefur komið að auðvitað er ekki eining um þetta í bændastétt þó að niðurstaða hafi fengist og sé sameiginleg í þessu máli.

Það er ljóst að margir bændur munu því miður ekki eiga þess kost að fá þessi lán. Því verður áfram erfitt um vik hjá mörgum bóndanum. Einnig verður nýliðun í bændastétt, það að hefja búskap, áfram afar erfið. Landbúnaðurinn er langt á eftir sjávarútvegi og iðnaði í lánafyrirgreiðslu. Þar er verkefni sem taka þarf til athugunar og úrlausnar á næstu missirum.

Herra forseti. Varðandi fyrirvara minn við þetta mál er þess að geta að það er ekki síður úrvinnslan, næsta stig, sem ég vil fjalla um í því sambandi. Það er ekki síst að búnaðarsamböndin úti um landið hafa fengið minna og minna til síns rekstrar. Ég tel að einmitt nú við þessa uppstokkun hefði verið lag til að auka hlut þeirra og efla þannig leiðbeiningarþjónustuna heima í héruðum. Framlög á fjárlögum til búnaðarsambandanna hafa minnkað. Þau fengu 2--4% af jarðræktarframlögum sem ekki eru lengur greidd. Á sama tíma hafa hlaðist ýmis verkefni á samböndin, þ.e. ýmis verkefni við framkvæmd laga og reglugerða er varða landbúnaðinn. Framlögin eru í rauninni aðeins hlutdeild í launum héraðsráðunauta. Það eru nú öll framlögin. Verði ekki breyting á þessari þróun, þá verður að teljast augljós stefna þeirra sem ráða málum að færa faglegar leiðbeiningar, rannsóknar- og félagsstarfsemi í landbúnaði af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið. Það er ekki þróun sem ég vil sjá. Ég vil að henni verði snúið við aftur. Mér er þessi þróun áhyggjuefni og ég vil sjá breytingarnar í gagnstæða átt og að fleira af stoðkerfi landbúnaðarins verði staðsett á landsbyggðinni. Því þarf að leiðrétta á fjárlögum að framlög til búnaðarsambandanna vaxi þar einnig. Ég beini því til hæstv. landbrh. að við munum taka vel á því máli, a.m.k. sum hver í hv. fjárln., verði það í rammanum hjá ráðuneytinu að hækka til búnaðarsambandanna og jafnvel taka það upp sjálf.

Einnig er á það að benda að frv. felur í sér lækkun á gjöldum til Framleiðsluráðs landbúnaðarins úr u.þ.b. 42 millj. í 38 millj. á ári. Þetta láðist hv. þm. Lúðvík Bergvinssyni að upplýsa í ræðu sinni að hlutur Framleiðsluráðs er minnkaður. Það mega menn gjarnan hafa í huga. Hins vegar vex hlutur og umsvif í yfirstjórn búgreinanna eitthvað.

Herra forseti. Vera kann að félagar í hv. landbn. spyrji hvaða ástæður liggi að baki stuðningi mínum við frv. fyrst ég hef þessa fyrirvara og þær meiningar um hvað betur mætti fara. Ástæðurnar eru margar, sérstaklega þessi að innheimta verður einfaldari og gjaldstofninn einn í stað tveggja, ein álagningarprósenta í stað margra og þannig má vænta betri innheimtuárangurs en verið hefur. Mér er að vísu þyrnir í augum það sem kemur fram í brtt. að 20% vanskilaálag verði lagt á þá fjárhæð sem er vangreidd, þ.e. ef mismunur er á milli álagningar og staðgreiðslu sem skattstjóri reiknar. Almenna reglan um slíka refsingu er 10%, en þá er þess að geta að hér eru ekki dráttarvextir inni heldur aðeins þessi eina greiðsla, þ.e. 20% álag á mismuninn á álagningu og staðgreiðslu. Auðvitað má ekki verða hvetjandi að greiða ekki búnaðargjaldið. Það er vissulega rétt en ég hefði viljað sjá þessa prósentutölu lægri.

Herra forseti. Kerfið verður ódýrara og einfaldara í framkvæmd og innheimta búnaðargjalds með nýju fyrirkomulagi sparar allnokkra fjármuni þótt vissulega muni það þýða einhverja aukafyrirhöfn hjá þeim bændum sem ekki hafa sjálfir staðið skil á sjóðagjöldunum, þeim gjöldum sem afurðastöðvarnar hafa hingað til séð um skil á og það er vissulega í flestum búgreinum. En málflutningur minni hlutans í nefndinni hefur samt sem áður verið gloppóttur á köflum. Til að mynda kemur fram í nál. minni hlutans, sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og Ágúst Einarsson undirrita, að fela hefði mátt Lánasjóði landbúnaðarins og Hagþjónustunni verkefni Framleiðsluráðs og lækka hlut þess að sama skapi meira, hins vegar gera sömu þingmenn athugasemd í nál. minni hluta við frv. um Lánasjóð landbúnaðarins við þá hugmyndafræði að yfirleitt skuli rekinn sérstakur niðurgreiddur lánasjóður fyrir landbúnaðinn. Því má segja um þá tvo eins og skáldið forðum í aldarhætti einhverjum:

  • Eitt rekur sig á annars horn,
  • eins og graðpening hendir vorn.
  • Herra forseti. Þetta frv. fjallar um fjármögnun á félagskerfi landbúnaðarins og hluta af stoðkerfi hans. Fleira þarf til að koma eigi að takast að rétta við afkomu margra bænda í landinu og vissulega hefur verið bent á það við umræðuna, t.d. af hv. þm. Agli Jónssyni. Launagreiðslugetan á sauðfjárbúum hefur lækkað á nokkrum árum um nær helming og það er vissulega mjög alvarleg staða. Sambærileg lækkun á kúabúum er 9% á sama tíma, þ.e. á árabilinu 1991--1995. Þetta er samkvæmt niðurstöðum úr uppgjöri búreikninga hjá Hagþjónustu landbúnaðarins.

    Við vinnuna sem fram undan er í gerð búvörusamnings fyrir mjólk þarf að leggja áherslu á að samningurinn tryggi viðunandi afkomu kúabænda og áframhaldandi hagræðingu sem er vissulega eftirtektarverð í mjólkurframleiðslunni.

    Herra forseti. Í það heila tekið er lagasetning fyrir landbúnaðinn og aðgerðir gagnvart honum loksins á réttri leið eftir langvarandi óráð og rangar ákvarðanir að miklu leyti um áratugi. Ég hef ekki átt þátt í þeirri fortíð, en mér líður miklu betur yfir því að eiga vonandi þátt í þeirri framtíð sem stefnir að hagsbótum fyrir landbúnaðinn og að hann sé rekinn sem arðbær grein og verði smátt og smátt þannig vaxinn að bændur búi við sambærileg kjör við aðra í þessu landi. En eins og mál standa nú, sérstaklega í sauðfjárræktinni, þá er langt frá því að svo sé.

    Að lokum þakka ég svo samnefndarmönnum mínum í landbn. fyrir samstarf og hv. formanni, sem hér gekk til sætis síns, fyrir forustu hans í nefndinni.