Búnaðargjald

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 14:21:19 (6612)

1997-05-15 14:21:19# 121. lþ. 127.5 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., Frsm. meiri hluta GÁ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[14:21]

Frsm. meiri hluta landbn. (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem farið hefur fram. Hún er til skýringar á málinu. Auðvitað hafa menn sem hafa sérstöðu í málinu gagnrýnt ýmis atriði. Ég vil mönnum til skýringar af því að sumir hafa látið sem svo að þeir skildu ekki tilganginn og teldu þetta flókið, segja, eins og segir í umsögn frá fjmrn., með leyfi forseta: ,,Tilgangurinn með hinu nýja búnaðargjaldi er að einfalda álagningu gjalda í landbúnaði, bæta innheimtu þeirra og styrkja innheimtuúrræði. Gjaldstofn búnaðargjalds er velta búvöru og tengdrar þjónustu hjá búvöruframleiðendum. Við þessa breytingu má gera ráð fyrir því að árleg innheimta sjóðagjalda lækki úr um 610 millj. kr. í um 390 millj. kr. miðað við núverandi veltu.``

Þarna er því um mikla veltu að ræða, eins og ég sagði í ræðu minni, einföldun á kerfinu og mikill sparnaður í milliliðum sem mun bæði koma landbúnaðinum og neytendum til góða. Það mun spara kostnað í afurðastöðvum hvort sem það eru mjólkurbú eða sláturhús. Þetta mun spara mikið í Framleiðsluráðinu, eins og hefur komið fram, þannig að þetta mál er til einföldunar.

Síðan er spurningin um aðferðina. Gengur hún upp eða gengur hún ekki upp? Verður þetta, eins og hér hefur komið fram hjá einhverjum þingmönnum, viðbótarskattur á bændur?

Bændasamtökin hafa unnið þetta mál mjög vel hvað sem hver segir og náð mikilli samstöðu á stuttum tíma um það. Auðvitað kemur einhver smáefi sem eðlilegt er. Það er efi við allar kerfisbreytingar. Það liggur í hlutarins eðli að sitt sýnist hverjum. Þær umsagnir sem hafa borist eru flestar á þann veg að búnaðarsamböndin, búgreinafélögin og Bændasamtökin eru einhuga í þessu máli. Bændasamtökin hafa ferðast um landið, farið á búnaðarsambandsfundina og kynnt niðurstöður og komið til baka með þær upplýsingar að gagnrýni á þessa breytingu sé ekki mikil. Ég vona því að í landbúnaðinum sé samstaða um málið.

Hvað Framleiðsluráðið varðar og skiptingu gjaldsins, þá segi ég að landbúnaðurinn verður náttúrlega í meginatriðum að ráða sínum málum sjálfur. Bændur halda búnaðarþing sem stendur líklega ekki nema í viku núna. Öðruvísi mér áður brá þegar það stóð jafnvel í einn og tvo mánuði meðan hv. Egill Jónsson sat þar líklega í ein 40 ár ef mig misminnir ekki. Þá var þetta mikil samkoma og stóð oft í tvo mánuði. Nú er þetta vikuþing og þar fjalla menn um málefni landbúnaðarins. Hvað Framleiðsluráðið varðar, þá get ég alveg tekið undir efasemdir og gagnrýni á milliliðina í landbúnaðinum. Þar er hægt að hagræða meira. En Bændasamtökin verða að fá þann tíma sem þau þurfa til þess. Það verður að gerast innan frá og ég trúi því að þar sé mikil vinna í gangi af hálfu Bændasamtakanna. Framleiðsluráðið missir eitthvað af hlutverkum sínum við þessa breytingu og auðvitað hljóta þeir að marka stefnu um það að Framleiðsluráðið sameinist Bændasamtökunum sem er ekkert óeðlilegt. Það er mín skoðun en þeir verða að taka á innri málum sínum sjálfir.

Hvað skiptingu í búnaðarsambönd varðar og aðrar greinar, þá hafa þeir náð samstöðu um það eins og ég hef getið um. Ég hygg að stjórn Bændasamtakanna sé þannig skipuð að hún komi úr öllum kjördæmum. Og ég hygg að þeir fulltrúar sem þar sitja telji sig bera ábyrgð á búnaðarsambandinu sínu og það standi þeim jafnvel hjartanu næst í þeirri umfjöllun á skiptingu á fjármagni sem á sér stað. Ég segi fyrir mig að bændurnir sjálfir verða að ráða sínum málum og ráðstafa þessari skiptingu og hagræða enn betur ef þeir taka fljótt á, eins og kom fram hjá mönnum um Framleiðsluráðið o.s.frv., þá lækkar gjaldstofninn.

Ég ætla aðeins að grípa niður í það sem menn hafa sagt. Það eru örfá atriði sem mig langar að minnast á. Ég tek undir með hv. þm. Lúðvík Bergvinssyni að auðvitað er Framleiðsluráðið dýrt batterí og þarf endurskoðunar við og það verða Bændasamtökin að gera. Hv. þm. Egill Jónsson hefur sérstöðu í þessu máli og fylgir því ekki og hefur gagnrýnt ákveðna hluti. Ég sagði áðan að ég hefði ekkert um það að segja. Hann yfirgaf mig og félaga sína þannig að þrír af hans mönnum fylgja mér og meiri hlutanum. Því ber auðvitað að fagna en hann hefur sína sérstöðu í málinu og verður bara að fá að róa sína leið. Hann vildi hafa það svo.

Það er langt í frá að Framsfl. sé í fýlu út í Egil Jónsson. Framsfl. er ekki í neinni fýlu út í hann. Það er Egill Jónsson sem hefur lagst í pólitískt þunglyndi yfir þessum tveimur málum (Gripið fram í: Framsfl. lætur þannig.) og verið með stór orð, ekki síst í sambandi við lánasjóðinn í gær. Það er ekki nýtt að hann fari sínar leiðir. Það var miklu sterkara að fara sínar leiðir á síðasta kjörtímabili þegar varadekkin skiptu einhverju máli. (Gripið fram í.) En staðan er auðvitað sú að um þetta er samstaða í þinginu á milli stjórnarflokkanna. Ég vil segja um það sem hann minntist á að ég talaði við Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóra Bændasamtakanna, í morgun um þá fullyrðingu, sem hér hafði komið fram, að búnaðargjaldið yrði launaskattur á bændur og það þýddi eins og hv. þm. Egill Jónsson sagði 5% viðbótarskerðingu á tekjur þeirra. Hann fullyrti, eftir skoðun með hinum færustu mönnum, að þetta gjald mundi auðvitað verða borið uppi af afurðaverði vörunnar. (Gripið fram í.) Ég verð að treysta því.

Ég vil nefna annað sem hv. þm. minntist réttilega á með loðdýrabændur, að þeir njóti ekki þjónustu Framleiðsluráðsins en séu gjaldskyldir þangað. Þetta hef ég rætt við Bændasamtökin og við gerðum það á fundi nefndarinnar og erum eðlilega þeirrar skoðunar að þeir verði að taka á því í sínu húsi og endurgreiða þessar upphæðir til loðdýrabænda sem ekki njóta þjónustunnar svo þeir geti notið þess eins og aðrir í sína þjónustu. Ég vil halda þessari skilgreiningu fram, ekki gera neina breytingu á málinu heldur verði það viðurkennt að þeir njóti ekki þjónustunnar og fái einhvern hluta peninganna til sinna verkefna hvort sem þeir greiða það í Bjargráðasjóð, eins og þeir hafa bent á, eða eitthvert annað.

Hér hefur komið fram töluverð gagnrýni á viðbótargreinina um 20% sem er lagt til að bætist við 5. gr. Hv. þm. Pétur Blöndal og fleiri hafa komið inn á þetta atriði. Þar segir: ,,Bætist heimild fyrir skattstjóra til að leggja sérstakt 20% vanskilaálag á vangoldið búnaðargjald þegar álagning þinggjalda fer fram. Álagið ásamt því sem vangoldið er verði síðan innheimt á þeim gjalddögum þinggjalda sem eftir eru af árinu. Álagið er ákvarðað nokkuð hátt til að tryggja sem best skil á búnaðargjaldi.``

Þetta er í samræmi við það að menn eiga ekki að njóta þess að greiða ekki tilskilin gjöld. Það falla ekki á vanskil dráttarvextir og ekki nein viðurlög þannig að þetta er eitt gjald, 20%, sem síðan greiðist með jöfnum borgunum á þarnæsta ári. Ég hygg að þetta sé nokkuð í samræmi við annað. Þetta er mun lægra en gerist t.d. í virðisaukaskatti. Þar falla á viðurlög og er hærri upphæð. Ég hef alltaf talið mikilvægt að menn greiði skuldir sínar og hafi ekki hag af því að draga að greiða þær. Ég geri því ekki athugasemdir við þetta og þykist hafa útskýrt hvað átt er við í þessum lið.

Fleira efnislegt hefur svo sem ekki komið fram við þessa umræðu. Ég hef rakið mínar skoðanir og ég treysti því að þetta mál verði til þess að hagræða og spara í landbúnaðinum. Og auðvitað er það stórt verkefni að bæta stöðu íslenskra bænda. Ég tek undir með hv. þm. Pétri Blöndal að auðvitað hefur samdrátturinn og hitt að bændur hafa tekið á sig miklar skerðingar um þjóðarsáttarsamninga o.s.frv., það hefur skert tekjur þeirra mikið á síðustu árum. Þeir hafa lagt mikið til þjóðarsáttar. Það er stórt verkefni sem má ekki dragast og í því er verið að vinna af Bændasamtökunum, landbrh. og fleirum, að finna leiðir til þess að efla landbúnaðinn og hefja hans sókn á nýjan leik.