Búnaðargjald

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 14:37:17 (6615)

1997-05-15 14:37:17# 121. lþ. 127.5 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[14:37]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Nú þykir mér þingmaðurinn gerast nokkuð stórorður. Það er mitt mál ef ég kýs að skjóta skildi fyrir Egil Jónsson ef ég tel ómaklega að honum vegið. En það að halda því fram að ég sé í einhverjum leikaraskap til að hleypa upp þinginu eru fáheyrð ummæli. Mig munar ekkert um að setja á eins og fjögurra klukkustunda ræðu um landbúnaðarmál og endurtaka mig hvergi, m.a. í þessu máli, ef því er að skipta og ef menn vilja slíkt. Það er ekki verið að ræða um það. Hér er verið að benda á að það er ágreiningur milli stjórnarliðanna í þessu mái. Það hefur einn þingmaður með rökum tekið undir sum sjónarmið stjórnarandstöðunnar án þess að það væri byggt á rökum stjórnarandstöðunnar. Það er sannfæring hans að svo sé. Við höfum tekið undir það. Það er ómaklega vegið að honum í umræðunni. Framsóknarmönnum þykir hann greinilega liggja vel við höggi. Hann stendur greinilega einn og yfirgefinn af sínum samþingsmönnum og það er hans mál. Hann ber það ágætlega og hefur komist fyrr í gegnum orrahríð án þess að þurfa að njóta stuðnings flokksmanna sinna. En ég vil samt sem áður biðja menn um að gæta fullrar sanngirni gagnvart hv. þm. Agli Jónssyni, og ég frábið mér dylgjur af hálfu hv. þm. Guðna Ágústssonar að ég sé í leikaraskap eða að hleypa upp þingi. Ef hann skilur ekki um hvað málið snýst vildi ég ráðleggja að enn yrði gert hlé á fundinum og framsóknarmenn kæmu sér saman um og reyndu að átta sig á um hvað málið snerist.