Búnaðargjald

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 15:03:37 (6626)

1997-05-15 15:03:37# 121. lþ. 127.5 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[15:03]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég nefndi það áðan að það getur vel verið að ástæða væri til að skoða bæði þá upphæð sem rennur til Framleiðsluráðsins og rekstur þess í heild, ekki síst í ljósi þess að þar hafa verið að gerast breytingar. Sú athygli sem vakin hefur verið á því, bæði í störfum hv. nefndar og í umræðunum núna, leiðir til þess að við hljótum að skoða það mál. Mér finnst það eðlilegt og sjálfgefið.

Ég vil þó aðeins nefna það út af heildartölunum sem hv. þm. flutti í morgun að í ársreikningunum er verið að fjalla um tímabilið frá september 1994 til desember 1995 af því að reikningsskil voru færð frá verðlagsári til almanaksárs þannig að upphæðirnar voru fyrir 16 mánuði en ekki 12 mánaða tímabil. Það er út af fyrir sig til skýringar svo það hafi komið fram og sé áréttað þannig að tölurnar séu virtar í því ljósi. Ég árétta það að ég tel eðlilegt að við skoðum málefni Framleiðsluráðsins í kjölfar þessarar umræðu en tökum það ekki inn í þetta frv. sem við erum að fjalla um hér og nú. Það er mál sem ber að athuga með endurskoðun á lögunum um Framleiðsluráð og þeirri starfsemi sem þar fer fram.