Búnaðargjald

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 15:08:51 (6630)

1997-05-15 15:08:51# 121. lþ. 127.5 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[15:08]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins út af ummælum hv. þm. Verði farið í endurskoðun á lögum um Framleiðsluráðið og sú endurskoðun leiði til þess að það þurfi að breyta öðrum lögum þá er það bara eitthvað sem er eðli málsins samkvæmt og hlýtur að vera afleiðing. Ég sagði áðan að ég teldi að við gætum ekki tekið á því hér og nú hafandi ekki farið í gegnum stöðu og verkefni Framleiðsluráðs nánar en gerst hefur. Þess vegna væri eðlilegt að þetta frv. liti út eins og það lítur út hér. Síðan, ef breyting verður á framleiðsluráðslögunum sem leiðir til þess að menn kæmust að þeirri niðurstöðu að þeir fjármunir sem renna eiga til Framleiðsluráðsins ættu að vera einhverjir aðrir, hærri eða lægri, ég hef enga afstöðu til þess hér eða nú, þá þurfa menn að breyta þessum lögum.

Um hitt að lögbjóða skiptinguna þá vil ég undirstrika að ég veit ekki annað, það eru náttúrlega mál sem koma inn hjá nefndinni, en ég hef litið svo á og mínar upplýsingar segja mér að það sé vegna tillögu frá Bændasamtökunum. Ég var að segja, hæstv. forseti, við vangaveltum hv. þm. um það hvort ráðherrann ætti að ráða þessari skiptingu, löggjafinn Alþingi eða samtökin sjálf ættu að ráða henni að mér finnst að félagasamtökin sjálf eigi að ráða því. Sé þetta tillaga þeirra þá hef ég ekki á móti málsmeðferðinni. Ef þessi ágætu samtök, félagasamtök bænda, komast að því síðar að þau vildu hafa skiptinguna öðruvísi þá yrðum við sjálfsagt að breyta þessum lögum. Ég get svo sem fallist á að það sé svolítið þungt í vöfum en ég vona að þessi niðurstaða sé fengin eftir mikla yfirvegun af hálfu samtakanna því það er stórt mál að ákveða skiptinguna og biðja um að hún sé lögboðin.