Búnaðargjald

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 15:10:45 (6631)

1997-05-15 15:10:45# 121. lþ. 127.5 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., EgJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[15:10]

Egill Jónsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi skipting er fengin af hálfu stjórnar Bændasamtaka Íslands og formanna búgreinasambandanna. Ég kannast ekki við það t.d. að búnaðarsamböndin hafi verði kvödd til ráða um þessa skiptingu. En það sem er afar mikilvægt í þessari umræðu er það að hæstv. landbrh. telur eðlilegt að Bændasamtökin annist þessa skiptingu og þá getur það ekki gerst öðruvísi en að það verði gert með reglugerð. Því auðvitað er það Alþingi sem tekur ákvörðunina og Alþingi hleypur auðvitað ekki upp til handa og fóta þótt kallað sé á einhverjar tilteknar, kannski smávægilegar en þarfar, breytingar í þessum efnum. Skiptinguna er því langsamlega eðlilegast að greina, eins og ég gat um í fyrri ræðu minni, milli búnaðarsambanda, milli Bændasamtakanna, milli Stofnlánadeildarinnar, en kveða svo á um það í reglugerð að öðru leyti hvernig skiptingu sé háttað.