Suðurlandsskógar

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 15:23:40 (6635)

1997-05-15 15:23:40# 121. lþ. 127.8 fundur 524. mál: #A Suðurlandsskógar# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[15:23]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem hér er um að ræða er af minni hálfu ósk um að það liggi alveg skýrt fyrir þegar Alþingi tekur á máli sem þessu að viðkomandi áætlun fari sem slík í gegnum mat á umhverfisáhrifum lögum samkvæmt. Ég er sannfærður um að slík vinna, slíkt mat, mun greiða götu viðkomandi framkvæmda og gera þær betur úr garði en ella væri. Og það er nú svo, virðulegur forseti, að nokkur ár eru síðan lögin um mat á umhverfisáhrifum voru sett. Þau sækja fordæmi sitt til alþjóðlegra viðhorfa og eru að verða viðtekin regla. Ég vil geta þess að einmitt eru komnar mótandi reglur, m.a. hjá Evrópusambandinu, um það að áætlanir, skipulagsáætlanir og verkáætlanir, þar á meðal af þeim toga sem hér um ræðir, fari alveg ákveðið undir slíkt verklag á undirbúningsstigi. Ég skora á hv. formann landbn. að taka undir það sjónarmið að þessi háttur verði á hafður varðandi áætlunina sjálfa. Síðan kemur til framkvæmda samkvæmt fjárveitingum og annað þess háttar og auðvitað er sjálfsagt að hinir stærri þættir fari til sérstakrar athugunar, einnig samkvæmt mati á umhverfisáhrifum, en ég er að tala um áætlunina sem slíka fyrst af öllu. Síðan er það matsatriði með einstaka framkvæmdarþætti sem ég er sannfærður um að verður auðveldara að ná utan um og ná sátt um eftir að búið er að fara yfir hin almennu atriði sem varða sjálfa áætlunina. Það er mikill misskilningur, virðulegur forseti, ef það er andstaða við það, t.d. hjá ríkisstofnun eins og Skógrækt ríkisins, að þetta verklag sé haft á og stafar af hreinum misskilningi að mínu mati.