Suðurlandsskógar

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 15:58:08 (6644)

1997-05-15 15:58:08# 121. lþ. 127.8 fundur 524. mál: #A Suðurlandsskógar# frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[15:58]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér er hið merkasta mál á ferðinni þar sem ætlunin er að gefa sem flestum færi á að taka þátt í fjölnytjaskógrækt á Suðurlandi og stuðla þannig að þróun og viðhaldi byggðar á svæðinu jafnframt því að græða og bæta landið fyrir komandi kynslóðir og byggja nýja náttúruauðlind fyrir komandi kynslóðir eins og segir í fylgiskjali I með frv., eða greinargerð um Suðurlandsskóga. Hér er ekki um neitt stundarverkefni að ræða heldur er verið að leggja grunn að áætlun og starfi til 40 ára um ræktun timburskóga á allt að 15 þús. hekturum lands, skjólbeltum á allt að 10 þús. km og landbótaskógrækt á um 20 þús. hekturum. Til þess að áætlunin gangi eftir þarf mikið fé eða hátt í 100 millj. kr. árlega. Það má því ljóst vera að með samþykkt þessa frv. er verið að stofna til umtalsverðra útgjalda til framtíðar. En fjármögnun er aðeins tryggð til næstu fjögurra ára. Auk þess má búast við auknum kröfum frá öðrum landshlutum um að þeir fái einnig stuðning til álíka verkefna og eins og menn vita er slíkt langtímaverkefni þegar hafið á Austurlandi. Það má minna á áhuga fólks víða um land á því að vinna að uppgræðslu og landbótum þótt ekki séu jafnstórtækar hugmyndir á ferð og hér eru felldar inn í sérstakt frv.

[16:00]

Ég get t.d. alveg minnt á merkilegt starf sem lagður hefur veri grunnur að í landnámi Ingólfs og stofnuð um það samtök einstaklinga, félaga, sveitarfélaga og fyrirtækja, með það að markmiði að vinna að því að stöðva gróður- og jarðvegseyðingu, styrkja vistkerfi svæðisins og auka og bæta gróður í þeim tilgangi að endurheimta glötuð landgæði og skapa vistlegra umhverfi fyrir þann stóra hluta þjóðarinnar sem býr á svæðinu, eins og segir í lögum samtakanna sem voru samþykkt á stofnfundi þeirra.

Þar er hins vegar ekki á dagskrá að efna til nytjaskógræktar eins og ætlunin er að hluta til með áætluninni um Suðurlandsskóga. Samt þótti okkur sem stóðum að undirbúningi þessa framtaks ástæða til þess að setja alla nauðsynlega fyrirvara til að tryggja að framkvæmd verkefnisins ylli engum þeim spjöllum sem ekki yrðu aftur tekin. Á stofnfundinum var því samþykkt yfirlýsing um vinnubrögð þar sem m.a. kemur fram að umhverfismat verði lagt til grundvallar þar sem um stórverkefni verður að ræða. Ályktunin hljóðaði reyndar svo í heild, með leyfi forseta:

,,Við áætlanir um hvers konar landgræðsluaðgerðir á vegum samtakanna, gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs, skal taka tillit til náttúrufars viðkomandi svæðis svo sem helstu búsvæða plantna og dýra og vistkerfa sem ástæða gæti verið til að vernda. Enn fremur til náttúruminja, þjóðminja og landslagsgerða. Leggja skal áherslu á að fella uppgræðslu lands sem best að landslagi og náttúrufari. Meta skal umhverfisáhrif stórra ræktunaráætlana.``

Þannig má ljóst vera að fyrirhyggjan var ekki eftir skilin og markmiðið er að standa faglega að verki. Ég neita því ekki að það veldur mér áhyggjum að hv. landbn. skuli ekki hafa fallist á að taka inn í frv. eitthvað svipað og hér hefur verið lesið og skýrt frá. Það hefur komið fram að ýmsir fagaðilar hafa óskað eftir að svo yrði gert og talið nauðsynlegt að hafa slíkt inni í lögunum til að girða tryggilega fyrir hugsanleg mistök. Við erum hér að efna til gríðarlegra verkefna á sviði landgræðslu og skógræktar sem munu kosta þjóðina mikla fjármuni og að sjálfsögðu hafa mikil áhrif á þau landsvæði sem um er að ræða. Mér finnst fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt og raunar nauðsynlegt að meta fyrir fram hvort þau áhrif séu óæskileg eða eingöngu til góðs. Ég þykist vita að að minnsta kosti hluti nefndarmanna er sama sinnis og væri tilbúinn til að taka slíka breytingu inn í frv. og ég blátt áfram skil ekki andstöðu manna við svo sjálfsagðar varúðarráðstafanir. Mér þykir mjög slæmt að nefndin skuli ekki hafa fallist á að taka þetta atriði inn í lögin. Það hefði slegið á áhyggjur manna og tryggt mun víðtækari sátt og stuðning við málið en hugsanlega er um að ræða að óbreyttu. Það er út af fyrir sig ... (Gripið fram í.) Hér var kallað inn í hvar er formaður nefndarinnar. Ég spyr hæstv. forseta hvort hann telji ekki eðlilegt að formaður nefndarinnar sé viðstaddur umræðuna.

(Forseti (ÓE): Við skulum athuga það.)

Ég er alveg að ljúka máli mínu, herra forseti.

(Forseti (ÓE): Þetta er allt í lagi það er nógur tími. Þingmaðurinn vill kannski fresta ræðu sinni, við förum í atkvæðagreiðslur innan stundar.)

Ég get út af fyrir sig gert það herra, forseti, og mun þá endurtaka eitthvað af því sem ég hef sagt hér áður vegna þess að mér var hreint ekki ljóst að formaður nefndarinnar væri fjarstaddur.

(Forseti (ÓE): Hv. þm. frestar ræðu sinni og umræðunni um málið er frestað. Það vantar menn í salinn til að hlusta.)