Skipulags- og byggingarlög

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 16:42:50 (6650)

1997-05-15 16:42:50# 121. lþ. 127.23 fundur 98. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (heildarlög) frv., Frsm. ÓÖH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[16:42]

Frsm. umhvn. (Ólafur Örn Haraldsson):

Herra forseti. Eins og formaður nefndarinnar boðaði í framsögu taldi nefndin ástæðu til að fjalla um nokkrar greinar frv. Umhvn. fjallaði um málið milli 2. og 3. umr. og var samþykkt á þeim fundi að flytja brtt. sem fram koma á þskj. 1300.

Um er að ræða breytingar á þremur greinum.

Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á 2. mgr. 21. gr. og er þar fjallað um óverulegar breytingar á aðalskipulagi. Varðar tillagan auglýsingaferli það sem fram skal fara áður en breytingin fæst staðfest.

Í öðru lagi er lögð til breyting á 26. gr. þess efnis að felld er niður skilgreining á því hvað felst í óverulegri breytingu og hljóðar 1. málsl. 2 mgr. þá svo:

,,Þó er heimilt að falla frá auglýsingu ef um óverulega breytingu er að ræða.``

Telur nefndin að þarna hafi ef til vill verið um óþarflega mikla þrengingu að ræða. Þó er ætlunin að ákvæðið verði áfram túlkað þröngt.

Í þriðja lagi er lögð til breyting á 6. mgr. 42. gr. þar sem eðlilegra þykir að sveitarstjórn verði heimilt að fresta afgreiðslu umsóknar um leyfi til niðurrifs eða breytinga á hús í stað þess að gert var ráð fyrir að þetta félli undir byggingarnefnd áður.