1997-05-15 16:48:11# 121. lþ. 127.34 fundur 608. mál: #A samningur Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og samningur um þvætti# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[16:48]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Með þáltill. þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á samningi Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni sem gerður var í Vín 20. desember 1988 og fullgildingar á samningi um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum sem gerður var í Strassborg 8. nóvember 1990.

Markmið beggja samninganna er að efla alþjóðasamvinnu um afbrotavarnir, einkum að því er varðar baráttu gegn fíkniefnaverslun.

Samningur Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni, fíkniefnasamningurinn, er gerður í kjölfar tveggja eldri samninga Sameinuðu þjóðanna á sviði fíkniefnamála frá 1961 og 1971. Ísland er aðili að báðum þessum samningum. Markmið samninganna er að skilgreina og flokka hvaða efni teljast vera fíkniefni annars vegar og skynvilluefni hins vegar og setja reglur um alþjóðlegt eftirlit með þessum efnum. Með fíkniefnasamningnum frá 1988 er hins vegar ætlunin að berjast gegn fíkniefnabrotum og fíkniefnaverslun með hertri refsilöggjöf aðildarríkja hans og alþjóðlegri samvinnu.

Í 3. gr. fíkniefnasamningsins er að finna skilgreiningu á fíkniefnabrotum og þvætti ávinnings af slíkum brotum sem aðildarríkjum er skylt að gera refsiverð í löggjöf sinni.

Í samningnum er jafnframt kveðið á um skyldu aðildarríkja til að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera til að gera megi fíkniefni, efni og tæki sem notuð eru til fíkniefnaframleiðslu og ávinning fíkniefnabrota upptækan, eða verðmæti sem koma í stað ávinnings. Þar er einnig mælt fyrir um alþjóðlega samvinnu um upptöku ávinnings af fíkniefnabrotum.

Með lögum nr. 10/1997 sem afgreidd voru fyrr á þessu þingi voru lögfest ýmis ákvæði og gerðar ýmsar lagabreytingar sem nauðsynlegar voru til að unnt verði að standa við skuldbindingar sem aðildarríki gangast undir samkvæmt samningunum tveimur. Það má því segja, herra forseti, að efnislega hafi mál þetta verið til umfjöllunar fyrr á þessu þingi þar sem þegar hefur verið gengið frá þeim lagabreytingum sem eru nauðsynlegar til að standa við skuldbindingar samkvæmt þessum samningi.

Ég vil því leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til síðari umræðu og til hv. utanrmn.