Vegáætlun 1997 og 1998

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 16:57:53 (6655)

1997-05-15 16:57:53# 121. lþ. 127.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997 og 1998# þál., Frsm. meiri hluta EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[16:57]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 1997--2000, frá meiri hluta samgn., ásamt brtt. á þskj. 1285.

Að þessu sinni er lagt til að einvörðungu verði tvö ár vegáætlunar endurskoðuð. Um þessar mundir er verið að ljúka mörgum stórum verkefnum og því þykir eðlilegra að miða við styttra tímabil en vani er. Gert er ráð fyrir að á næsta þingi verði lögð fram tillaga til þingsályktunar um vegáætlun til fjögurra ára, 1998--2001.

Af þessu leiðir að sjálfsögðu að stefnumótun til lengri tíma mun bíða þeirrar endurskoðunar sem fram mun fara á næsta þingi.

Að öðru leyti hafa starfshættir við afgreiðslu tillögunnar verið með hefðbundnum hætti. Þingmenn kjördæma hafa unnið að gerð tillagna um skiptingu framkvæmdafjár til almennra verkefna og verkefna í framkvæmdaátaki á stofnvegum, svo og til tengivega. Hlutföll milli kjördæma í þessum verkefnaflokkum eru hin sömu og fyrir árin 1997 og 1998 í gildandi vegáætlun.

Breytingar eru gerðar á tekjuhlið áætlunarinnar á þann veg að tekjur ársins 1997 hækka um 150 millj. kr. frá tillögunni. Þessi hækkun byggist á endurskoðun markaðra tekna í apríl síðastliðnum. Sú endurskoðun bendir til að tekjur af bensíngjaldi hækki um 40 millj. kr., tekjur af árgjaldi þungaskatts hækki um 60 millj. kr. og tekjur af kílómetragjaldi þungaskatts hækki um 50 millj. kr. Endurskoðunin var gerð sameiginlega af starfsmönnum fjármálaráðuneytisins og Vegagerðarinnar.

Reiknað er með að tekjur haldi áfram að aukast 1998 og er tekjuáætlunin það ár hækkuð um 182 millj. kr. Á því ári er einnig tekið inn lánsfé vegna vegtenginga Hvalfjarðarganga að fjárhæð 400 millj. kr. Þetta er helmingur áætlaðs kostnaðar við tengingarnar og á að endurgreiðast af vegáætlun á árunum 1999--2003. Hinn helmingurinn kemur sem lánsfé í gegnum Spöl ehf. og á að endurgreiðast af veggjaldi eins og kostnaðurinn við sjálf göngin. Samkvæmt þessu hækkar niðurstöðutala ársins 1998 um 582 millj. kr.

[17:00]

Bæði árin eru hér reiknuð á sama verðlagi, þ.e. verðlagi ársins 1997, enda á að leggja fram nýja vegáætlun þegar á næsta þingi eins og ég hef áður sagt.

Skipting útgjalda breytist einnig nokkuð og eru helstu breytingarnar þær að auknar tekjur renna til almennra verkefna og bundinna slitlaga, höfuðborgarsvæðis og stórverkefna á stofnvegum, svo og tengivega og brúa 10 m og lengri. Þá hækka framlög til safnvega og tilrauna lítillega, en síðasttaldi liðurinn er bundinn í vegalögum.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að frestað verði framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu vegna hættu á þenslu af völdum mikilla framkvæmda í stóriðju og virkjunum. Í útgjaldalið tillögunnar er þessi frestun sett upp þannig að 222 millj. kr. eru færðar af framkvæmdaliðum yfir á flóabáta (liður 2.9). Er þá miðað við að þessir fjármunir séu notaðir til að flýta afborgunum af lánum vegna ferja en fjármunina átti síðan að endurgreiða af liðnum flóabátar 1999. Reykjavíkurborg óskaði eftir því við samgönguráðherra að hætt yrði við þessa frestun. Í framhaldi af því var samið um að borgin frestaði framkvæmdum hjá sér sem næmi þessari upphæð, en í staðinn héldust vegaframkvæmdir óskertar. Liðurinn 2.9 til flóabáta er því lækkaður um áðurnefndar 222 millj. kr. og bætast við liðina 2.3.1.4 Framkvæmdaátak og 2.3.1.2 Höfuðborgarsvæðið.

Framkvæmdir í Hvalfirði eru teknar inn í gjaldahlið með sama hætti og í tekjuhlið. Þá er uppsetningu gjaldahliðar einnig breytt þannig að lán til verkefna á Skeiðarársandi og í Hvalfirði eru aðgreind frá fjárveitingum. Þessi lán eiga að greiðast af vegáætlun á næstu árum. Þessi nýja uppsetning þykir skýrari en sú fyrri, sem gerði ekki greinarmun á lánsfé og fjárveitingu að þessu leyti, og komist verður frekar hjá tvítalningu þegar fjárveitingar koma á vegáætlun til endurgreiðslu þessara lána.

Eins og áður er sérstakur liður á vegáætlun merktur Austurlandsgöng. Jafnframt er gert ráð fyrir á árinu 1998 óskiptum lið sem nefnist jarðgangarannsóknir. Þar er m.a. horft til undirbúnings og athugunar á tengingu norður- og suðurhluta Vestfjarða og sá undirbúningur á því að geta hafist á þessu ári.

Meiri hlutinn er sammála um að næsta vetur verði daglegar ferðir Baldurs yfir Breiðafjörð. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar hækkar það rekstrarkostnað Baldurs um tæplega 6 millj. kr. á ári. Jafnframt verði snjómokstursdögum fjölgað til samræmis við það.

Í athugasemdum með tillögunni kemur fram að nokkrar breytingar eru gerðar við vegaskrá og flokkun vega. Meiri hlutinn hefur farið yfir þessar breytingar og gerir ekki athugasemdir við þær, enda koma vegaskrárnar til endurskoðunar í heild á næsta þingi.

Undir þessa tillögu rita auk frsm. hv. þm. Egill Jónsson, Magnús Stefánsson, Stefán Guðmundsson, Árni Johnsen og Kristján Pálsson.