Vegáætlun 1997 og 1998

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 18:12:55 (6665)

1997-05-15 18:12:55# 121. lþ. 127.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997 og 1998# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[18:12]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er heilmikið til í því að þeirri langtímaáætlun hafi í grundvallaratriðum verið breytt eða horfið frá henni og því áliti þáv. þingnefndar sem vann og lagði fram þá áætlun þó hún væri ekki afgreidd á Alþingi frekar en sú fyrsta. En það er vegna þess að hæstv. samgrh. valdi að fara allt, allt aðrar leiðir í þessum málum, vinna að þeim á allt annan hátt en allir forverar hans höfðu gert. Hæstv. samgrh. tók yfir á Vegasjóð allan rekstur ferja og flóabáta í landinu upp á um 0,5 milljarða kr. án þess að Vegasjóður fengi það bætt í tekjum á nokkurn hátt. Það setti náttúrlega strax frá byrjun heldur betur hressilega strik í reikninginn. Síðan fór hæstv. ráðherra þá óvenjulegu leið, eins og kunnugt er, að taka hluta af framkvæmdafé til vegagerðar út fyrir sviga og skipta því sjálfur á hnjánum á sér í stað þess að láta Alþingi gera það eins og lög gera ráð fyrir.

Varðandi það sem hæstv. ráðherra nefndi fyrst, þá er ég ósammála honum um að ekki sé slæmt að þingmannahópar kjördæmanna og Alþingi í heild sinni nái ekki sem mestri samstöðu um framkvæmdir í vegamálum. Það er þvert á móti mjög miður og mér þykir það mjög miður að þurfa að hafa þann fyrirvara á sem ég hef gert grein fyrir. Ég tek fram að það var fyrirvari í sjálfu sér en ekki endalega yfirlýst andstaða við einhver einstök atriði í þeirri niðurstöðu sem liggur fyrir, heldur fyrst og fremst fyrirvari sem er vegna þess að hin efnislega niðurstaða, fjárveitingarnar til framkvæmda eru slíkar að ég treysti mér ekki til að standa að þeim eða leggja nafn mitt við þær með neinum hætti.

Varðandi það að hæstv. samgrh. hafi uppfyllt lagaskyldu sína með því að leggja fram till. til þál. um vegáætlun, þá er það rétt, enda hef ég hvergi sagt að samgrh. væri að brjóta lög. Mér dettur það ekki í hug og í raun og veru, eins og ég tók fram áðan, er Alþingi í sjálfu sér ekki að brjóta lög en það sem Alþingi er að gera er að það er að búa til mótsagnir í ákvörðunum. Það er annars vegar horfandi upp á gildandi vegalög og hins vegar að afgreiða vegáætlun með þessum hætti. Samkvæmt þeim hefðum sem hafa skapast ef menn hafa ætlað sér a.m.k. að bjarga sér fyrir horn, herra forseti, þá ætti að flytja tillögu með svokölluðu þrátt-fyrir-ákvæði sem segði: Þrátt fyrir ákvæði 18.--25. gr. vegalaga skal svona að þessu staðið á þessu ári. Þá mætti segja að menn slyppu fyrir horn, annars ekki.