Vegáætlun 1997 og 1998

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 18:16:28 (6667)

1997-05-15 18:16:28# 121. lþ. 127.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997 og 1998# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[18:16]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er reyndar nokkuð síðan það rann upp fyrir mér að hæstv. samgrh. hafi ekki skilið hugsunina á bak við framkvæmdaáætlanir af því tagi sem langtímaáætlun í vegagerð er og framkvæmdaáætlanir á mörgum öðrum sviðum sem eru t.d. alsiða í nágrannalöndum okkar. Þannig er að á þjóðþingum hinna Norðurlandanna byggja langflestir viðamestu málaflokkarnir á framkvæmdaáætlunum eða áætlunum. Einhvers konar ,,handlingsplan`` liggur fyrir á öllum helstu framkvæmdasviðum og málasviðum. Vegamálin voru eitt af fáum dæmum um að við Íslendingar hefðum þó reynt að taka skipulega á, móta stefnu og fylgja skipulögðum áætlanabundnum vinnubrögðum í mikilvægum framkvæmdaflokki. Það er nefnilega þannig að þetta er tilraun til að komast í burtu frá handahófskenndum vinnubrögðum og umpólun hvað varðar stefnu í slíkum málum, t.d. þegar stjórnarskipti verða. Það er einmitt til þess að reyna að komast í burtu frá því að þessi mál standi á haus einu sinni á fjögurra ára fresti eða jafnvel oftar við hver einustu stjórnarskipti. Af hverju er það? Það er vegna þess að það er vont hvort sem heldur er fyrir samfellu í uppbyggingu samgöngumannvirkja eða rekstur heilbrigðiskerfisins eða hvað það er annað, að pólitískir sviptivindar setji stefnuna í slíkum málum á haus á fjögurra ára fresti. Aðferðin til að komast hjá því er sú að byggja á einhverri langtímastefnumótun, einhverjum meginlínum og reyna að ná pólitískri samstöðu um þær á löggjafarsamkomunni og þá helst til nokkuð langs tíma í senn sem menn endurskoða síðan að sjálfsögðu eftir því sem þörf krefur í takt við breyttar aðstæður. Þetta er hugsunin og þetta er alls staðar annars staðar en hér kölluð skipuleg og ábyrg heiðarleg pólitísk vinnubrögð. En það er ógæfa Íslands að sitja uppi með samgrh. sem hefur ekki skilið þetta.