Vegáætlun 1997 og 1998

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 19:43:29 (6676)

1997-05-15 19:43:29# 121. lþ. 127.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997 og 1998# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[19:43]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekki birtir mikið yfir eftir því sem hæstv. ráðherra kemur oftar í stólinn, það verð ég að segja. Og þegar hæstv. ráðherra fer að andmæla jarðgangagerð út frá því að mörgum verkefnum sé ólokið og Austfirðingar finni fyrir því þá er það síðara rétt. En það sem út úr þessu kemur samkvæmt málflutningi hæstv. ráðherra er það, eins og hann sagði reyndar með beinum orðum, hann hugsar ekki til þess að það verði haldið áfram jarðgangagerð í landinu. Það eru Hvalfjarðargöngin og búið. Það er stefna núv. hæstv. ráðherra, það er alveg dagljóst og hefur raunar komið fram áður.

Að Alþb. hafi staðið fyrir niðurskurði til vegaframkvæmda á þeim tíma sem ég sat í ríkisstjórn. Ég hef nú ekki farið yfir það, ekki haft aðstöðu til þess nema rétt í huganum. Ég held að ekki sé hægt að finna því stað í raun en það kann að vera að hæstv. ráðherra hafi upplýsingar þar að lútandi. Ég man eftir því að lagður var hafísvegur með sérstökum fjárveitingum á þeim árum sem kom Norðausturlandi sérstaklega til góða og sér þessa merki enn. Ég man ekki eftir því að um niðurskurð hafi verið að ræða á þessum tíma til vegaframkvæmda. En það er löngu liðin tíð og staðreyndin er sú að við blasir nauðsynin á því að stórauka vegaframkvæmdir og að réttlæta þennan niðurskurð og núverandi stefnu í vegamálum með vísan til stóriðjuframkvæmda er alveg dæmalaus málflutningur.