Vegáætlun 1997 og 1998

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 19:49:57 (6679)

1997-05-15 19:49:57# 121. lþ. 127.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997 og 1998# þál., Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[19:49]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var dálítið sérkennilegt andsvar hjá hv. þm. því að það kom fram í andsvari mínu áðan að ég gerði ekkert með fréttir sem höfðu borist út um það á sl. hausti að Framsfl. hefði verið að leggja til einhvern viðbótarniðurskurð, vegna þess að ég lagði áherslu á það hér í máli mínu að vitaskuld bæru stjórnarflokkarnir sameiginlega ábyrgð á þessu máli. Og ég veit ekki til þess að stjórnarflokkarnir hafi gert hina minnstu tilraun til þess að skorast undan ábyrgð í þessum efnum og allra síst hv. þm. Stefán Guðmundsson, sem ég veit að er einhver ákafasti og dugmesti baráttumaður fyrir auknum fjárveitingum til vegamála. Það kom fram í máli hans og hefur margoft komið fram í starfi hans í samgn. Alþingis þannig að það er engin leið hjá 4. þm. Austurl., þó að hann sé að reyna það hér, að reka fleyg á milli stjórnarflokkanna í þessum efnum. Honum mun ekki takast það einfaldlega vegna þess að stjórnarflokkarnir bera auðvitað sameiginlega ábyrgð á þessu máli eins og öðrum þeim málum sem ríkisstjórnin stendur að.

Það er svo hins vegar önnur saga hvernig mönnum mun takast að auka fjárveitingar til vegamála. Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að þegar ég hef setið undir þessum umræðum hér í dag og áttað mig á hversu lítill áhugi hefur í raun verið á þessum málaflokki hér í þinginu og hefur endurspeglast í ótrúlega lítilli setu manna undir þessari umræðu, þá hefur auðvitað meira en flögrað að manni hvort það endurspeglaði þann pólitíska þrýsting eða skort á pólitískum þrýstingi sem manni finnst stundum vera í þessum málaflokki. Og það er auðvitað ákveðið áhyggjuefni þegar svo er og umhugsunarefni fyrir okkur sem höfum verið þátttakendur í þessari umræðu og erum áhugafólk um að reyna að bæta vegamálin í landinu hvernig þessi mál virðast vera að þróast hér í þinginu, að það sýnist vera æ minni áhugi á þessum málaflokki ef marka má a.m.k. þátttökuna í umræðunni og viðveru manna undir henni.