Vegáætlun 1997 og 1998

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 19:54:08 (6681)

1997-05-15 19:54:08# 121. lþ. 127.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997 og 1998# þál., KHG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[19:54]

Kristinn H. Gunnarsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Nú er svo komið í umræðunni að greinilegt er að allnokkuð er eftir órætt. Í ljósi fram kominna upplýsinga um afstöðu Framsfl. er nauðsynlegt að kalla til fundar formann Framsfl. og knýja á um svör hans við yfirlýsingum um hvort rétt sé að Framsfl. hafi beitt sér alveg sérstaklega fyrir enn meiri niðurskurði en þegar er orðinn.

Ég hygg, herra forseti, að umræðunni geti ekki lokið á þessari stundu. Það verður að kalla til formann Framsfl. og fá svör í þessum efnum.

Enn fremur hefur það líka bæst við, herra forseti, að yfirlýsingar stjórnarliða í fréttum Stöðvar 2 núna áðan voru allar á þá lund að það væri verið að senda ríkisstjórninni skilaboð með nefndaráliti meiri hlutans, það væri verið að senda ríkisstjórninni þau skilaboð frá meiri hluta samgn. að samgn. mundi ekki fallast á frekari niðurskurð, þess vegna væri bara afgreidd vegáætlun til tveggja ára. Það þýðir, herra forseti, að við verðum líka að fá til fundar hæstv. forsrh. til þess að fá svör hans við skilaboðum samgn. um framlög til vegamála á næstu árum.

Svo vil ég að lokum, herra forseti, til viðbótar við þessi tvö atriði sem ég hef nefnt og hvort um sig rökstyður að umræðunni geti ekki lokið án orðaskipta við þessa tvo ráðherra og formenn stjórnarflokkanna, minna forseta á að það voru strengileg loforð forseta að þingfundi lyki kl. 7, m.a. vegna óska frá okkur alþýðubandalagsmönnum sem höfum gert ráðstafanir til þess að hittast í kvöld. Frá þessu hefur verið gengið fyrir löngu síðan og verður af okkar hálfu ekki hægt að víkja frá því. En við viljum auðvitað ekki þurfa að fara héðan úr umræðunni á þessu stigi máls. Og fyrst ekki tekst að ljúka henni að sinni eftir þau orðaskipti sem urðu hér áðan, þá hlýt ég, herra forseti, að fara fram á það fyrir hönd þingflokksins að þessu máli verði nú frestað til morguns því við verðum að fara innan örfárra mínútna vegna þeirra skuldbindinga sem við höfum tekið á okkur í kvöld og verður ekki breytt.