Vegáætlun 1997 og 1998

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 20:00:10 (6683)

1997-05-15 20:00:10# 121. lþ. 127.12 fundur 309. mál: #A vegáætlun 1997 og 1998# þál., Frsm. meiri hluta EKG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[20:00]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það standa að sjálfsögðu öll efni til þess að hægt sé að ljúka þessari umræðu þannig að þingmenn Alþb. geti staðið við sínar mikilvægu skuldbindingar hér í kvöld. Ég geri ekki lítið úr því að þeir þurfi að fara úr þingsalnum og tel sjálfsagt að við getum lokið þessu bara núna vegna þess að málið er í sjálfu sér útrætt. Við erum búin að fara mjög rækilega yfir þessi mál og ég verð að játa það að það kemur mér á óvart að hv. þm. eins og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir skuli grípa til svona útúrsnúninga eins og hún gerði áðan.

Það sem ég var að vekja athygli á og margítrekaði var að stjórnarflokkarnir stæðu saman að þessu máli vegna þess að verið var að reyna að snúa út úr orðum hv. þm. Stefáns Guðmundssonar áðan. Það var verið að túlka það á þann veg að Framsfl. vildi auka framlög til vegamála en Sjálfstfl. vildi það ekki.

Ég var einmitt að reyna að benda á hvernig væri verið að snúa út úr þessum orðum og reyna að ala á tortryggni milli flokkanna og tók sem dæmi fréttir fjölmiðlanna í því sambandi sem ég að sjálfsögðu sagðist ekki leggja trúnað á vegna þess að staðan væri einfaldlega sú að flokkarnir bæru sameiginlega ábyrgð á þessum málaflokki. Það ættu þingmenn að vita hvort sem þeir hafa setið lengur eða skemur á þingi að auðvitað bera stjórnarflokkarnir sameiginlega ábyrgð á stjtill. eins og þessari. Það er margoft búið að ræða það og ítarlega hér í dag hver er ástæðan fyrir því að það varð niðurstaðan að vera með þessa áætlun einungis til tveggja ára. Fyrir því voru flutt rök, bæði af mér og hæstv. ráðherra fyrr í dag, og sýnt fram á að þetta væri líka í samræmi við vegalögin. Það kallar ekkert á sérstaka umræðu frekar um þetta vegna þess að umræðunni er lokið. Það er búið að tæma þessa umræðu þó að vitaskuld geti menn endalaust haldið áfram og reynt að finna fleti á svona stóru máli.

Ég vil fullyrða það, virðulegi forseti, að þetta mál hefur fengið mjög eðlilega efnislega umfjöllun í dag. Umræðan hefur staðið alllengi, ég hef ekki einu sinni talið þann tíma sem þetta mál hefur staðið en hún hefur staðið alllengi og verið fluttar ítarlegar og ágætar efnislegar ræður og þeim verið svarað eftir föngum. Ég tel því, virðulegi forseti, að þetta séu algerlega tilefnislausar óskir og alls ekki og engin ástæða til þess að ljúka ekki þessari umræðu núna.

(Forseti (GÁS): Forseti vill benda hv. þm. á að undir þessum lið, fundarstjórn forseta, er við það miðað að rædd sé fundarstjórn forseta en ekki efnisleg umræða um málið.)