Réttur almennings til athugasemda við starfsleyfi til atvinnurekstrar

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 10:02:50 (6687)

1997-05-16 10:02:50# 121. lþ. 128.95 fundur 340#B réttur almennings til athugasemda við starfsleyfi til atvinnurekstrar# (umræður utan dagskrár), Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[10:02]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Sú umræða utan dagskrár sem ég óskaði eftir og hæstv. forseti hefur leyft varðar rétt almennings til að gera athugasemdir við ákvarðanir stjórnvalda um starfsleyfi til atvinnurekstrar.

Tilefni þessarar umræðu er sannarlega alvarlegt. Það liggur fyrir að hæstv. umhvrh. hefur í tvígang á innan við einu ári gefið út tvær reglugerðir til breytingar á gildandi mengunarvarnareglugerð og þessar reglugerðarbreytingar hæstv. ráðherra reynast báðar vera ólöglegar, standast ekki mælikvarða laga. Fyrst gerðist þetta í júlí 1996. Þann 3. júlí gefur hæstv. ráðherra út reglugerð nr. 394, breytir fyrri mengunarvarnareglugerð, afnemur með reglugerðarbreytingunni heimild til að skjóta athugaemdum til sérstakrar úrskurðarnefndar, það er afnumið með þeirri reglugerðarbreytingu.

Hæstv. ráðherra stóð fyrir svörum hér í desembermánuði af tilefni fyrirspurnar um það hvort þessi reglugerð hefði lagastoð og fullyrti úr þessum ræðustól að svo væri. Mánuði seinna rösklega varð hæstv. umhvrh. að gefa yfirlýsingu um að honum hefði skjátlast í þessu máli, reglugerðin stæðist ekki lög og hæstv. ráðherra gaf út nýja reglugerð nr. 26/1997, til breytingar á fyrri ákvörðunum sínum í reglugerðum. Og þá tekst ekki betur til en svo að sú reglugerð sem þá er sett er einnig í andstöðu við gildandi lagaákvæði, 26. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Á þessu var vakin athygli af þeim sem hér talar, bæði við umræður hér á Alþingi í lok janúar um álbræðslu á Grundartanga --- en starfsleyfi til þess rekstrar er bakgrunnur þessara ákvarðana hæstv. ráðherra --- og síðan með sérstöku bréfi til Hollustuverndar ríkisins þann 13. mars sl. Það sem hefur síðan gerst sýnir ótvírætt, sem reyndar blasir við hverju læsum manni, að ákvæði þessarar reglugerðarbreytingar frá janúar sl. er einnig andstætt lagaákvæðum. Þetta er m.a. staðfest af sérstakri álitsgerð sem Magnús Thoroddsen lögmaður ritaði og skilaði til Hollustuverndar ríkisins sem svar við spurningu Hollustuverndar ríkisins þess efnis, svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Er hægt að líta svo á að framkvæmd mála samkvæmt 65. gr. mengunarvarnareglugreðar eigi sér ekki næga stoð í lögum nr. 81/1988?``

Svar lögmannsins er ótvírætt að svo er ekki. Að nákvæmlega sömu niðurstöðu kemst síðan úrskurðarnefnd sem er að fjalla um athugasemdir aðila samkvæmt tilvísun sama hæstv. ráðherra sem beindi mönnum til þessarar úrskurðarnefndar. Og í niðurstöðu sinni 26. apríl í máli sem Oddur Benediktsson kærði til nefndarinnar, kemst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að draga verði í efa --- hún er ekki spurð um það en hún verður að fjalla um það, hún bendir á það, leggur lykkju á leið sína til að koma því að ---- að þessi reglugerð virðist stangast á við lög nr. 81/1988 og m.a. af þeim sökum geti nefndin ekki um málið fjallað. En sama úrskurðarnefnd bendir á að það sé heldur ekki kleift fyrir hana að fjalla um þessi efni sem til hennar er beint, kærumál vegna starfsleyfis álbræðslu á Grundartanga, þar eð ráðherra umhverfismála gaf út starfsleyfi 26. mars sl. og þeirri ákvörðun hæstv. ráðherra verði ekki breytt og úrskurðarnefndin sé alls ekki bær um að fjalla um álitaefni sem varða þetta starfsleyfi.

Virðulegur forseti. Í þessu máli og öllum öðrum málum sem varða útgefin starfsleyfi til atvinnurekstrar af hæstv. umhvrh. eru engir möguleikar uppi fyrir almenning að leita réttar síns, að fá tekin fyrir kærumál sem varða útgáfu slíkra starfsleyfa. Og hæstv. umhvrh. er að vinna einstætt afrek, því miður, hræðilegan gjörning, að loka leiðum fyrir almenning til þess að leita réttar síns. Og þetta er gert, menn hljóta að spyrja: Hvers vegna? Hvers vegna í ósköpunum grípur hæstv. umhvrh. til örþrifaráða af þessum toga, að setja reglugerð á reglugerð ofan sem augljóslega er í ósamræmi við gildandi lagaákvæði? Það er rétt að hæstv. ráðherra svari þeirri spurningu sjálfur. En það er ekki langt að leita skýringa í þessum efnum. A.m.k. blasir það við í mínum huga að hæstv. ráðherra er hér að vinna pólitísk verk fyrir ríkisstjórnina, fyrir hæstv. iðnrh., fyrir Framsfl. og ber á þeim alla ábyrgð, gjörning sem er einstæður í stjórnsýslu hér síðustu áratugi.

Ég hlýt að spyrja, virðulegur forseti: Hvað á Alþingi að gera við þessar kringumstæður og hvað ætlar hæstv. umhvrh. að gera? Ætlar hæstv. umhvrh. að sitja sem ráðherra, orðinn uppvís að því að ganga gegn lögum trekk í trekk að því er best verður séð í pólitískum tilgangi, að misbeita valdi sínu með þessum hætti? Getur slíkur ráðherra setið í embætti stundinni lengur? Hæstv. ráðherra verður að svara því hvað hann ætlar að gera. Það er því miður vart ráðrúm fyrir Alþingi að fjalla um slíkt mál á þeim klukkustundum sem væntanlega eru eftir af þinghaldi þannig að í bili er þetta fyrst og fremst samviskuspurning ráðherrans og þeirrar ríkisstjórnar og þeirra þingflokka sem ráðherrann situr í umboði fyrir. Þetta er ótrúleg staða, virðulegur forseti, sem Alþingi hlýtur að láta sig varða og almenningur í landinu hlýtur að láta sig varða. En spurningunni er ósvarað: Hvernig verður almenningi veittur sá réttur sem honum ber lögum samkvæmt í þessu stóra máli varðandi þetta starfsleyfi, en einnig í öllum hliðstæðum málum þar sem um er að ræða útgáfu starfsleyfa af hálfu hæstv. umhvrh.?