Réttur almennings til athugasemda við starfsleyfi til atvinnurekstrar

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 10:22:45 (6690)

1997-05-16 10:22:45# 121. lþ. 128.95 fundur 340#B réttur almennings til athugasemda við starfsleyfi til atvinnurekstrar# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[10:22]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli. Það er að sjálfsögðu frekar sorglegt að það skuli hafa gerst að reglugerðir hafa ekki staðist lög. Og það hefur einnig komið í ljós við umræðu um staðsetningu álvers á Grundartanga í Hvalfirði að eftirlit hefur ekki verið eins og gert er ráð fyrir. Þar af leiðandi hefur ýmislegt athugavert komið í ljós í þeim eftirlitsiðnaði sem þarf að fylgja stóriðju eins og við erum að setja upp í Hvalfirðinum og ekki er hægt annað en að gera athugasemdir við það. Þess vegna er alveg fullréttmætt að benda á slík atriði sem ekki hafa verið samkvæmt eðlilegum framgangi máls.

Ég held samt að hægt sé að fullyrða að hæstv. ráðherra hefur fullan hug á því að bæta þarna úr og hefur eftir því sem mér sýnist gert samkomulag við Sólarsamtökin í Hvalfirði um vöktun sem ég veit að þeir hafa lagt mikla áherslu á að yrði gerð í samráði við þá.

Annað atriði athugasemda þeirra Hvalfjarðarstrandarmanna eða Kjósverja er að setja upp vothreinsibúnað við álverið á Grundartanga. Að mínu viti hefur það ávallt verið réttmæt krafa, en eigi að síður tel ég okkur hafa möguleika til þess að koma því í kring ef í ljós kemur að mengunarvarnir eru ekki nægjanlega fullkomnar til þess að fullnægja ýtrustu kröfum. En ég fagna því að það er að nást sátt milli Kjósverja og hæstv. ráðherra og mér heyrist að hæstv. ráðherra með nýjum lögum sem hann ætlar að birta í haust, ætli að taka á þeim leiðinlegu ágreiningsmálum sem upp hafa komið milli ráðuneytisins og almennings.