Réttur almennings til athugasemda við starfsleyfi til atvinnurekstrar

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 10:25:14 (6691)

1997-05-16 10:25:14# 121. lþ. 128.95 fundur 340#B réttur almennings til athugasemda við starfsleyfi til atvinnurekstrar# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[10:25]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds þegar hv. formaður umhvn. hélt því hér fram að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefði komið óorði á umhverfismálin. Ég held varla að nokkur hér á þingi hafi verið jafnduglegur að koma umhverfismálum inn í umræðu og hv. þm. þrátt fyrir að sú barátta hafi ekki verið auðveld. Og að halda því fram hér á hinu háa Alþingi að hv. þm. hafi komið óorði á umhverfismálin er slík firra að hann ætti að koma hér upp í ræðustól aftur og biðjast afsökunar. Þetta er alveg fáheyrt, fádæma vitleysa.

En það sem hins vegar vekur mér mikla furðu í þessu máli er hvers konar brölt þetta eiginlega er. Að vera að breyta reglugerðum fram og til baka í því skyni að koma í veg fyrir að almenningur geti kært eða komið að athugasemdum um ákvarðanir stjórnvalda. Þetta gengur bara ekki upp í mínum huga og maður hlýtur að spyrja líkt og hv. málshefjandi gerði áðan: Hvers vegna? Hvað er að því að almenningur komi að sínum athugasemdum þegar um stóriðjuframkvæmdir er að ræða?

Ég hef engar sérstakar skoðanir á því hvernig eigi að framfylgja þessum málum eða hvort hér eigi að rísa álver eða ekki. En hins vegar er alveg lágmark að stjórnvöld fari að lögum og það hefur gerst núna í tvígang að hæstv. umhvrh. hefur ekki farið að lögum. Það hefur gerst í tvígang og ég hlýt að spyrja: Hvað gengur mönnum til? Hvers konar brölt er þetta? Hvers konar vandræðagangur er þetta? Það er eins og það sé eitthvað stórhættulegt að almenningur geti komið að athugasemdum við ákvarðanir stjórnvalda. Ég held að þetta mál hljóti að þurfa ítarlegri skoðun og ég vil þakka hv. málshefjanda fyrir að taka þetta upp og hvet formann umhvn. til að koma hér upp aftur og biðjast afsökunar á ummælum sínum hér áðan.