Réttur almennings til athugasemda við starfsleyfi til atvinnurekstrar

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 10:27:37 (6692)

1997-05-16 10:27:37# 121. lþ. 128.95 fundur 340#B réttur almennings til athugasemda við starfsleyfi til atvinnurekstrar# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[10:27]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hafði nú satt best að segja ekki ætlað mér að taka þátt í þessari umræðu sérstaklega, enda málshefjandi fullfær um að gera glögga grein fyrir málinu. En ég gat ekki á mér setið þegar hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, formaður umhvn. Alþingis, kom í ræðustól áðan. Ég verð að segja alveg eins og er að það að nota þannig tækifærið í utandagskrárumræðu sem er hafin á efnislegum forsendum og um tiltekið mál, til persónulegra árása af því tagi sem hv. þm. reyndi að upphefja hér áðan, er eitt af því allra lágkúrulegasta sem ég hef á 14 ára tíma mínum hér á Alþingi séð. Og að það skuli vera formaður umhvn. Alþingis sem hefur ekki merkilegra erindi í ræðustólinn heldur en raun bar vitni, er harla dapurlegt.

Það er nú alveg nóg, herra forseti, að standa frammi fyrir þeirri sorglegu falleinkunn sem stjórnsýsla og stjórnkerfi umhverfismála á Íslandi fær í þessu máli og ætla ég ekki að hafa um það harðari orð en þetta við vin minn, hæstv. umhvrh. en að segja að það er dapurleg falleinkunn sem hann, ráðuneyti hans og stjórnkerfi umhverfismála fær í þessu máli. En að bæta svo þeirri lágkúru við sem hér kom áðan fram af hálfu formanns umhvn. Alþingis var óþarfi og að mínu mati hefði hv. þm. betur látið það ógert að fara í ræðustólinn og fífla sig með framgöngu sinni.

Staðreyndin er sú að hæstv. umhvrh. fær auðvitað þessa sorglegu falleinkunn því að þar liggur hin pólitíska ábyrgð hvað sem hver segir og það er lítið skjól í lélegum lögfræðingum eða ónýtum embættismönnum. Hin pólitíska ábyrgð er á herðum hæstv. umhvrh. og það gerir málin náttúrlega ekkert betri þó að maður hafi það á tilfinningunni að hinn eiginlegi valdamaður hafi setið á öxlum hæstv. ráðherra og sé hæstv. iðnrh. Staðan er sú að þetta ætti að verða okkur öllum ærið umhugsunarefni og þá ekki síst auðvitað og fyrst og fremst hæstv. umhvrh. til þess að bæta úr því sem hér hefur miður farið.