Réttur almennings til athugasemda við starfsleyfi til atvinnurekstrar

Föstudaginn 16. maí 1997, kl. 10:35:44 (6694)

1997-05-16 10:35:44# 121. lþ. 128.95 fundur 340#B réttur almennings til athugasemda við starfsleyfi til atvinnurekstrar# (umræður utan dagskrár), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[10:35]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það vantar ekki stóryrðin hjá hv. málshefjanda í þessari umræðu. Ég get hins vegar sagt það við hann strax í upphafi lokaræðu minnar í þessari umræðu að þessu sinni að ég hef ekki hugsað mér að standa upp úr stóli umhvrh. eða segja af mér. Ég hef þvert á móti verið að reyna að vinna þetta mál af bestu samvisku eins og mér er unnt. Ég hef gert grein fyrir því á heiðarlegan hátt að ég telji að þessi löggjöf sé á margan hátt vanbúin og illa búin til þess að takast á við þessi mál. Ég hef lýst því yfir að ég hef leitað leiða til þess að opna leið almennings að málinu með að hafa rétt til að gera athugasemdir.

Og ég verð að segja það út af máli hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar að það kom mér afar mikið að óvart að það lýsti alveg fullkomnu þekkingarleysi hans á málsmeðferðinni. Þó hefur hv. málshefjandi haft fyrir því að dreifa nánast allri sögunni með bréfum og reglugerðum um það hvernig þetta hefur þróast og gengið fyrir sig og vilja minn til þess að reyna að sjá til þess að almenningur ætti kærurétt í þessu efni til úrskurðarnefndarinnar þó að um sé ræða starfsleyfi sem ráðherra hefur gefið út og hann sé hinn endanlegi úrskurðaraðili. Og hv. málshefjandi sagði í lok máls síns að sá réttur sem ráðherrann hefði verið að reyna að opna rynni út 7. júní. Er þá hægt að segja á sama tíma að ráðherrann hafi ekki beitt sér fyrir því að það væri réttur fyrir hendi? (HG: Hvenær ...?) Síðar kemur þetta upp, hv. þm., sem við erum að tala um núna að það er alvarlegur ágreiningur eða skoðanamunur milli þeirra lögfræðinga sem hafa komið að þessu máli og hv. málshefjandi getur auðvitað leyft sér að gera lítið úr ákveðnum (Gripið fram í.) lagaprófessorum (LB: Hvernig stendur á þessu reglugerðarbrölti?) í umræðunni.

(Forseti (ÓE): Ekki samtal.)

Reglugerðabrölti. M.a. vegna þess að við erum að reyna að skýra þessi óskýru lög og sjá til þess að það sé einhver skilmerkilegur farvegur fyrir málið. Og samkvæmt þeim niðurstöðum sem ég hef lagt hér upp með og þeim álitsgerðum sem ég hef lagt fram og reyndar hv. málshefjandi líka, ef ég hef séð rétt í þeim gögnum sem hér liggja fyrir á borðum, þá er það niðurstaða þeirra lögfræðinga að reglugerðin eins og hún er nú standist lög, samræmist þeim og þessi farvegur sé fyrir hendi. En við erum þarna í þessu vandasama, ég veit ekki hvort ég má segja öngstræti, að úrskurðarnefndin hefur komist að annarri niðurstöðu í efninu. Það sem ég greindi frá í umræðunum áðan er að ég hefði átt fundi með stjórn Hollustuverndarinnar um málið, hvernig við getum hugsanlega fundið leiðir í þessu til lausnar og eins og ég orðaði það áðan, úr því öngstræti sem málið því miður er í. Það mál er áfram í vinnslu hjá ráðuneytinu og hjá mér og mínum ráðgjöfum í þessu efni og við munum halda fund með stjórn Hollustuverndar á næstu dögum þar sem við förum áfram yfir það.

En það kann að vera þegar svona ágreiningur er uppi eins og hv. málshefjandi hefur dregið hér rækilega fram og ágreiningur milli lögmanna --- mér dettur ekki í hug að gera lítið úr þeim sem hér hafa verið nafngreindir, Magnúsi Thoroddsen og Eiríki Tómassyni. Ég ætla ekki að gerast dómari yfir því hvor hefur meira vit á eða getur betur skilgreint þetta mál --- og þegar svo alvarlega er komið að mál hafa vegna misvísandi álitsgerða lent í ákveðnu öngstræti, að það geti ekki aðrir en dómstólar skorið úr um það. Það kann að vera, eins og hv. þm. og málshefjandi orðaði það, að svo geti farið.

Ég mun reyna að halda áfram að vinna að því að finna þessu farveg eins og ég hef sagt frá og lýst yfir og vona að við getum náð ásættanlegri lendingu án þess að það þurfi að gerast fyrir dómstólum. Það getur þó endað þannig. Ég ætla ekkert að fullyrða um það. Og alltaf liggur náttúrlega fyrir að starfsleyfi útgefið af ráðherra er hægt að fara með fyrir dómstóla. Það liggur í hlutarins eðli og þarf ekki að endurtaka.

Aðeins út af ummælum hv. þm. Kristjáns Pálssonar sem hér tjáði sig lítils háttar um málið vil ég segja og ítreka að umræðan í vetur, undanfarnar vikur og mánuði, hefur bent til þess að það þurfi að taka til endurskoðunar lög um mat á umhverfisáhrifum. Ég hef lýst því yfir, ég held það hafi meira að segja verið í umræðum í þinginu í gær eða einhvern dag nýlega, að nauðsynlegt kunni að verða að endurskoða þessi tiltölulega nýju lög sem hafa verið að, við skulum segja, sanna sig eða hafa verið að koma fram í því efni, ýmis ákvæði og álitamál sem þarf að taka á í umræðunni undanfarið. Við höfum þegar haldið ráðstefnu um málið með ýmsum málsaðilum sem þetta varðar og hafið undirbúning að endurskoðuninni og á næstu dögum verður skipuð nefnd til þess að endurskoða lög um mat á umhverfisáhrifum. Ég geri mér vonir um að geta komið því fyrir næsta þing og er vonandi að okkur takist að lögfesta það.

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins að lokum aftur ítreka það að ég held áfram að leita leiða til lausnar í þessu efni og nota tækifærið til þess að þakka forsvarsmönnum Sólar í Hvalfirði fyrir það hvernig þeir hafa komið að þessu máli með mér og vonast til þess að eiga í það minnsta gott samstarf við þau samtök um framgang málsins.